Þar sem Vela-mælitunglin voru hernaðarlegs eðlis var ekki greint frá uppgötvuninni fyrr en árið 1973. Næsta aldarfjórðunginn reyndu menn ákaft að átta sig á uppruna og eðli fyrirbæranna jafnframt því að reyna að nema frá þeim sýnilega útgeislun. Hvorugt skilaði þó umtalsverðum árangri. Ástæðan var fyrst og fremst sú að afar erfitt er að miða út uppsprettu háorku rafsegulgeislunar nægilega vel til að staðsetja megi hana með þeirri nákvæmni sem nútíma stjarnmælingar krefjast. Því var heldur ekki ljóst hvort uppspretturnar væru staðsettar innan okkar vetrarbrautar eða í fjarlægum vetrarbrautum. Á þessu var ekki ráðin bót fyrr en svonefndu BeppoSAX-gervitungli var skotið á loft árið 1996. Hinn 28. febrúar 1997 tókst BeppoSAX í fyrsta sinn að staðsetja uppsprettu gammablossa með nægilegri nákvæmni til að unnt væri að mæla frá henni sýnilega geislun. Þá urðu straumhvörf í rannsóknum á blossunum og hafa þær staðið með miklum blóma síðan. Í ljós hefur komið að blossarnir eru upprunnir í gríðaröflugum stjörnusprengingum í fjarlægum vetrarbrautum. Þeir geta orðið mjög bjartir og sjást því afar langt að. Vegna þess hve skammlífir þeir eru þarf þó að hafa hraðar hendur við mælingar á þeim. Það er þó fyrst og fremst vegna þess að þá má mæla úr mikilli fjarlægð sem vonir standa til að þá megi nýta sem stika í athugunum á gerð og eiginleikum alheimsins.
- Hvað eru gammablossar og hvernig myndast þeir? eftir Gunnlaug Björnsson
- Hvað er svarthol? eftir Tryggva Þorgeirsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kristján Leósson og Þorsein Vilhjálmsson
- Af hverju verða gervihnettir að vera yfir miðbaug jarðar ef þeir eiga ekki að hringsóla um hana? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Getur mannsaugað greint gervihnetti í kíki á jörðu niðri? eftir Sævar Helga Bragason
- 1663 Losa Alamos Science and Technology Magazine. Sótt 18.3.2010.