Einkum hafa fyrri liðirnir umhverfis- og vist- keppt um hylli fólks. Fyrri liðurinn umhverfis- er raunar ef til vill heppilegri en vist- með tilliti til þess að liðurinn vist- er stundum nokkuð bundinn líffræðilega hugtakinu vistkerfi. En umhverfi er í margra vitund víðtækara hugtak en svo. Síðari liðurinn -vænn virðist njóta mestra vinsælda af þeim sem hér voru taldir upp. Algengast er að eitthvað sé sagt umhverfisvænt eða vistvænt. Liðurinn -vænn virðist til kominn með einhvers konar hliðsjón af d. venlig og samsvarandi orðum í hinum skandinavísku málunum. Þau orð eru aftur á móti þýðingar á e. friendly og þ. freundlich. Þegar orðið vænn stendur eitt og sér eru algengustu merkingar þess í nútímamáli ‘góður, efnilegur, álitlegur’ en í gömlu máli var merkingin ‘líklegur, sennilegur’. Til eru í íslensku allmörg eldri lýsingarorð sem enda á -vænn og þar virðist liðurinn hafa haft aðra merkingu en nú er farin að tíðkast. Þannig var orðið brimvænn haft um stað þar sem vænta mátti brims, staðvænn merkti ‘endingargóður, líklegur til að endast’, tíðindavænt var notað þegar eitthvað benti til að brátt yrðu stóratburðir. Vænn er í sömu orðafjölskyldu og vænta, von, vona og svo framvegis; staðvænn er til dæmis sá hlutur sem við megum eiga von á að endist. Á síðustu árum hefur orðum með -vænn fjölgað töluvert í íslensku máli. Talað er um prentvæn skjöl, starfsmannavæn jól og margt fleira. Hin yngri notkun, þar sem -vænn ber algengustu nútímamerkinguna ‘góður, efnilegur, álitlegur’, virðist sem sé víkja frá hefðinni, samanber orð á borð við staðvænn ‘líklegur til að endast’. Vissulega þurfa orð á borð við prentvænn og svo framvegis ekki að vera verri fyrir það og enn síður ef þau hafa aðra kosti sem vega upp á móti. Liðurinn -vænn er til að mynda stuttur og þjáll. Víkjum þá aftur að íslenskum orðum fyrir e. environmentally friendly. Enda þótt umhverfisvænn og vistvænn séu algengustu orðin í notkun núna er ef til vill full ástæða til að vekja sérstaka athygli á síðari liðnum -hæfur í þessu sambandi. Orðið umhverfishæfur var skráð í nýyrðadagbók Íslenskrar málstöðvar snemma árs 1991 og var raunar samþykkt fræðiorð hjá orðanefnd byggingarverkfræðinga samkvæmt Halldóri Halldórsson árið 1995. Orðið getur lýst því að tiltekin starfsemi hæfi tilteknu umhverfi. Orðið felur ekki í sér nein fyrirheit um að viðkomandi fyrirbæri, hvort sem það er nú til dæmis flugvél eða hreinsilögur, sé „gott“ fyrir umhverfið eða bæti það. Þann skilning mætti aftur á móti leggja í seinni liðinn -vænn. Það þarf ekki endilega að vera rétt lýsing. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvort er umhverfisvænna, plast eða pappír? Hvers vegna? eftir Ingibjörgu E. Björnsdóttur
- Hvaða munur er á vistvænni ræktun grænmetis og lífrænni ræktun? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hvað er umhverfi? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Hvernig getum við sem neytendur stuðlað að bættu umhverfi? eftir Stefán Gíslason
- HybridMile.com. Sótt 15.1.2010.