Orkuefni eru önnur efni í mat, og notum við þau sem eldsneyti sem við brennum í frumunum til að fá orku. Efnin í þessum flokki eru kolvetni, fita og prótín. Þau getum við ekki nýtt okkur fyrr en að lokinni meltingu í meltingarveginum. Orkan sem úr þessum efnum losnar er nýtt til vaxtar og viðhalds og hvers konar starfsemi sem líkaminn framkvæmir, til dæmis hreyfingar. Lokaafurðir bruna í frumunum er varmi, koltvíoxíð og vatn sem við öndum frá okkur. Orkuefni eða byggingareiningar þeirra eru einnig nýtt sem hráefni til myndunar annarra efna, til dæmis verða sumar amínósýrur prótína að vöðvum. Ef við fáum meira af orkuefnum í mat en við þurfum á að halda er þeim á endanum breytt í fitu sem er orkuforði sem hægt er að grípa til þegar harðnar í ári. Vítamín og steinefni eru einnig til staðar í mat. Þau gegna ýmsum hlutverkum við efnaferli líkamans og sem byggingarefni en eru ekki nýtt sem eldsneyti. Sem dæmi má nefna að steinefnið kalk er mikilvægt sem byggingarefni í beinum og D-vítamín er nauðsynlegt til að við getum nýtt kalkið úr matnum. Að lokum má nefna efni í mat sem við getum ekki melt. Hér er um svokölluð trefjaefni að ræða, en þau eru flókin kolvetni úr jurtaafurðum. Þótt við meltum þau ekki og þau fari óbreytt í gegnum meltingarveginn eru þau mjög mikilvæg sem burðarefni hægða. Það þýðir að þau flýta fyrir að ómelt og ómeltanleg efni og ristilgerlar losni úr líkamanum sem saur. Ef við fáum ekki nóg af trefjaefnum fáum við hægðatregðu og harðlífi sem getur ýtt undir ýmsa sjúkdóma. Af þessu er vonandi ljóst að ekki verður allt sem við borðum að okkur sjálfum, þótt það sé rétt að vissu marki að maður sé það sem maður borðar. Við nýtum ekki mat 100% til uppbyggingar á líkama okkar, þótt nýtingin sé góð. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað gerist ef við drekkum ekki vökva?
- Hver eru helstu frumefni líkamans?
- Hver er lágmarks næringarþörf mannsins?
- Getur maður drukkið svo mikið vatn að það verði óhollt eða skaðlegt líkamanum?
- Hvað brennir mannslíkaminn að meðaltali mörgum hitaeiningum á dag?
- Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu?
- Tortora, Gerald J. og Derrickson, Bryan. Introduction to the Human Body – the essentials of anatomy and physiology 7. útgáfa, John Wiley & sons, Inc., U.S.A., 2007.
- Mynd: Deadspin.com. Sótt 8.4.2010.