- Hvernig er hægt að verjast tölvuveirum og öðrum hættum á netinu?
- Hvers vegna sleppa veirur stundum í gegnum veiruvarnir?
- Hvers vegna eru til tölvuveirur, er ekki hægt að útrýma þeim?
- Hvað er trójuhestur í tölvum og af hverju sleppur hann oft í gegnum eldvegg? [svarar að nokkru leyti seinni hluta spurningar]
Eins og gefur að skilja eru veiruvarnaforrit (e. antivirus software) helsta leiðin til að verjast tölvuveirum. Því miður leysa þau ekki allan vanda því fleira þarf að varast á netinu en tölvuveirur auk þess sem nýjar tölvuveirur sleppa stundum framhjá veiruvarnaforritum. Þá geta notendur lent í ýmsum hremmingum við að bjarga gögnunum sínum og sótthreinsa tölvuna. Þó svo að veiruvarnaforrit séu mjög mikilvæg í baráttunni gegn tölvuveirum og nauðsynlegur búnaður á hverri tölvu, verða þau aldrei nein töfralausn. Ástæðan er helst sú að tölvuveirur eru í raun ekki tæknilegt vandamál heldur miklu fremur félagslegt, eins undarlega og það kann að hljóma, og ekki er hægt að leysa félagslegt vandamál með tæknilausnum eingöngu. Tvær meginröksemdir eru fyrir þessari staðhæfingu. Í fyrsta lagi eru tölvuveirur ekki sjálfsprottnar heldur eru þær mannanna verk. Þótt vitað sé um öryggisholur og veikleika í stýrikerfum sem hægt er að misnota, eru það glæpamenn sem búa tölvuveirurnar til og dreifa þeim. Öryggisholurnar sjálfar (sem eru tæknileg vandamál og þarf auðvitað að laga) eru sem sagt ekki uppspretta tölvuveira heldur þeir sem ákveða að nýta sér þessa veikleika. Í öðru lagi er langflestum tölvuveirum dreift í tölvupósti þar sem reynt er að gabba notandann til að opna viðhengi (e. social engineering) og ræsa þar með tölvuveiruna. Það er ekkert óeðlilegt við það að stýrikerfið leyfi notendum að ræsa tölvuveiru eins og hvert annað forrit. Stýrikerfið er gert til að hlýða skipunum notandans hvort sem þær eru æskilegar eða óæskilegar. Hvort eitthvað flokkast sem tölvuveira eða gagnlegt forrit snýst þar að auki oft og tíðum um væntingar notandans. Stýrikerfið hefur enga leið til þess að gera sér grein fyrir því hvers notandinn væntir af forritinu og hvort forritið geri eitthvað sem hann vildi ekki að yrði gert. Ef það væri hægt væri þegar búið að laga öll stýrikerfi og útrýma tölvuveirum.
Oft getur reynst erfitt að lækna veirusýktar tölvur. Því er best að sína fyrirhyggju og nota veiruvarnarforrit, eldvegg og vefsjárvörn.
- Nýlega uppfært veiruvarnaforrit til að finna þekktar tölvuveirur og greina grunsamlega hegðun forrita.
- Eldvegg til að verjast beinum árásum, netormum og innbrotum. Góðir eldveggir hafa líka forritastýringu (e. program control) þar sem notandinn getur stýrt því hvaða forrit fá að tengjast netinu. Þeir láta líka notandann vita ef ný eða breytt forrit, til dæmis tölvuveirur, reyna að fá netaðgang.
- Vefsjárvörn gegn sprettigluggum (e. pop-up window). Internet Explorer 6 er hefur innbyggða vefsjárvörn í Windows XP með uppfærslupakka 2 (e. service pack). Firefox er með slíka vörn fyrir öll stýrikerfi.
- Er hægt að senda veirur í gsm-síma? eftir Stellu Björt Gunnarsdóttur.
- Hver er munurinn á veirum og ormum í tölvum? eftir Erlend S. Þorsteinsson.
- Hver var fyrsta tölvuveiran? eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur.
- Hvernig fer veiruvarnarforrit að því að þekkja tölvuveirur? eftir Erlend S. Þorsteinsson.
- Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? eftir Evu Benediktsdóttur.