Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðin baktería og veira taka til þess um hvers konar lífveru er að ræða, en orðið sýkill tekur til þess hvað hún gerir: Sýkill er örvera sem veldur sjúkdómi. Sýklar geta verið lífverur af flokki veira, baktería, sveppa og frumdýra, sem eiga það eitt sameiginlegt að valda sjúkdómum. Aðeins örlítið brot allra baktería eru sýklar.
Bakteríur og veirur eru líffræðilega gjörólíkar og óskyldar. Bakteríur eru dreifkjarna frumur sem eru oftast færar um að lifa sjálfstæðu lífi. Þær vinna sér næringu úr næsta umhverfi, þær fjölga sér með skiptingu og margar geta hreyft sig.
Veirur eru ekki frumur og ekki sjálfstæðar lífverur, raunar eru menn ekki sammála um hvort beri að kalla þær lífverur: Oft er talað um veirur sem "sýkjandi agnir", og frekar sagt að þær séu "virkar" og "óvirkar" heldur en "lifandi" og "dauðar". Í raun eru þær erfðaefni innan í próteinhylki, ófærar um að fjölga sér sjálfar, en sýkja lifandi hýsilfrumur og stýra starfsemi þeirra á þann veg að þær fara að búa til nýjar veirur í stað þess að sinna reglulegri starfsemi sinni. Stundum veldur veiran dauða hýsilfrumunnar fljótlega eftir sýkingu, en oft kemur erfðaefni veiru sér fyrir í erfðaefni hýsilfrumunnar og truflar eða breytir starfsemi hennar.
Hver veirutegund er mjög sérhæfð með tilliti til hýsilfrumu: Ef þær komast ekki inn í rétta frumu geta þær ekki starfað. Segja má að allar lífverur hafi sínar veirur; til eru veirur sem ráðast á bakteríufrumur, aðrar sem ráðast á sveppafrumur, enn aðrar á mannafrumur, plöntufrumur og svo framvegis.
Algengt er að þvermál bakteríufrumu sé 1 míkrómetri, eða einn þúsundasti úr millimetra, en þvermál veiruagnar er oft 10 sinnum og niður í 100 sinnum minna.
Bakteríur finnast næstum alls staðar; til dæmis eru margar þúsundir til milljónir baktería í hverjum millilítra af sjó, í hverju grammi af mold og á einum fersentímetra á húð okkar. Þær gegna mikilvægu hlutverki í hringrás efna á jörðinni og við að viðhalda jafnvægi í náttúrunni. Margar bakteríur lifa í samlífi við aðrar lífverur og gera þeim gagn, og má þar benda á mjólkursýrubakteríur.
Hlutverk og magn veira í náttúrunni hafa minna verið rannsökuð, þar eð veirur sjást ekki í venjulegri smásjá sökum smæðar sinnar og erfitt er um vik að rækta þær þegar réttar hýsilfrumur eru ekki þekktar. Það kom mörgum á óvart að mikið fannst af veirum í sjó þegar að var gáð með rafeindasmásjá og nýlegar rannsóknir benda til þess að veirur gegni mikilvægu hlutverki í hringrás efna og örvera í sjónum með áhrifum sínum á aðrar lífverur.
Eva Benediktsdóttir. „Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=241.
Eva Benediktsdóttir. (2000, 15. mars). Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=241
Eva Benediktsdóttir. „Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=241>.