Eru krossfiskar fiskar? Hvað borða þeir? Hvar er munnurinn á þeim?Þrátt fyrir heitið eru krossfiskar (Asteroidea) ekki fiskar heldur tilheyra þeir fylkingu skrápdýra (Echinodermata). Innan þeirrar fylkingar eru meðal annars ígulker (Echinoidea), slöngustjörnur (Ophiuroidea) og sæbjúgu (Holothuroidea). Munnurinn á krossfiskum er á neðri hlið dýrsins. Þegar krossfiskar éta geta þeir hvolft maganum út úr munninum og melt bráðina að hluta utan líkamans. Síðan er hálfmelt fæðan tekin inn og lokið við að melta hana þar. Flestar tegundir krossfiska eru hræætur eða rándýr. Krossfiskar veiða meðal annars snigla (Gastropoda), samlokur (Bivalvia), krabbadýr (Crustacea), aðrar tegundir skrápdýra og jafnvel fiska (Pisces). Sumir krossfiskar eru mjög sérhæfðir í fæðuvali en aðrir eru algjörir tækifærissinnar. Hreinir tækifærissinnar leggjast á hræ og éta nær allar tegundir sem þeir komast í. Meðal annars hafa rannsóknir sýnt að tegund af ættkvíslinni Meyenaster leggur sér til munns meira en 40 tegundir sjávarhryggleysingja, aðallega önnur skrápdýr og lindýr (Mollusca).

Krossfiskur að gæða sér á kræklingi.
- Barnes R. D., Invertebrate zoology 5. útg. Saunders College publishing. 1987.
- Mynd: Starfish á Wikipedia. Birt undir GNU Free Documentation leyfi. Sótt 22. 2. 2010.