- Hvað er sæbjúga?
- Eru sæbjúgu fiskar eða gróður?
- Hvað eru til margar tegundir af sæbjúgum?
- Geta sæbjúgu eignast börn?
- Hvað geta sæbjúgu orðið gömul?
- Hvaða þjóðir borða helst sæbjúgu?
Sæbjúga af tegundinni Cucumaria miniata.
Margt í líffræði þessara dýra hljómar afar undarlega. Meðal annars geta sæbjúgu losað sig við líffæri þurfi þau að villa um fyrir rándýrum en líffærin vaxa síðan aftur. Önnur vörn sem sæbjúgu hafa gegn afræningjum felst í því að seyta slími sem virðist rugla árásaraðilann í rýminu. Auk þess eru sæbjúgu þekkt fyrir að seyta vökva sem deyfir fisk og hafa eyjaskeggjar í Suður-Kyrrahafi notað vökvann til fiskveiða, en hann gerir mönnum ekki mein. Perlufiskar (Carapus spp.) hafa nýtt sér þessa „hæfileika“ sæbjúgna til að verja sig og komið sér fyrir í líkamsholi þeirra þar sem þeir eru varðir fyrir ýmsum óvinum. Talsverð hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum bæði í Asíu og Eyjaálfu og eru það aðallega stórvaxnar tegundir af ættkvíslunum Holothuria, Stichopus og Thelonota sem eru notaðar til matargerðar á þessum svæðum. Í Asíu eru sæbjúgu til dæmis matreidd í Kína, á Kóreuskaganum og í Japan. Dæmi um meðhöndlun er að reykja, þurrka eða sjóða holdið og nota sem bragðbæti í súpur. Löng hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum hjá fjölmörgum þjóðum í suðvestur Kyrrahafi, aðallega á Papúa Nýju-Gíneu og nálægum eyjum, og hafa þau verið mikilvæg verslunarvara í aldaraðir. Spurt var hvort sæbjúgu geti eignast börn en væntanlega er átt við afkvæmi þar sem orðið börn er fyrst og fremst notað um afkvæmi manna. Sæbjúgu eignast afkvæmi líkt og aðrar lífverur jarðar. Flestar tegundir sæbjúgna eru einkynja og losa kynfrumur sínar í sjóinn þannig að frjóvgun verður útvortis. Eftir klak eggjanna gengur ungviðið í gegnum sviflægt lirfustig áður en það sest á sjávarbotninn og tekur á sig mynd fullorðins dýrs. Hjá nokkrum tegundum sæbjúgna fer frjóvgun þó fram innvortis þar sem lirfurnar klekjast út og þroskast áður en þær losna út í sjóinn. Flestar tegundir sæbjúgna geta náð 5-10 ára aldri. Sæbjúgu eru afar mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar þar sem þau éta mikið af rotnandi dýra og jurtaleifum. Rannsóknir hafa sýnt að á stórum hafsvæðum eru þau einn mikilvægasti hópur lífvera í því að koma lífrænum ögnum í botnsetinu aftur í umferð í fæðuhringrásinni. Heimildir og myndir:
- Barnes, R. 1987. Invertebrate Zoology. Orlando, Florida: Dryden Press.
- Brusca, R., G. Brusca. 2003. Invertebrates. Sunderland, Massachusetts: Sinauer Associates, Inc.
- Alaska Fisheries Science Center