Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um sæbjúgu?

Jón Már Halldórsson

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Hvað er sæbjúga?
  • Eru sæbjúgu fiskar eða gróður?
  • Hvað eru til margar tegundir af sæbjúgum?
  • Geta sæbjúgu eignast börn?
  • Hvað geta sæbjúgu orðið gömul?
  • Hvaða þjóðir borða helst sæbjúgu?
Sæbjúgu (Holothuroidea) eru hvorki gróður né fiskar heldur einn sex ættbálka innan fylkingu skrápdýra (Echinodermata). Aðrir hópar eru krossfiskar (Asteroidea), ígulker (Echinoidea), slöngustjörnur (Ophiuroidea), sæliljur (Crinoidea) og hópur sem á fræðimáli nefnist Concentricycloidea en hefur ekki fengið íslenskt heiti. Aðeins eru þekktar tvær tegundir í þessum síðastnefnda hópi og var sú fyrri uppgötvuð árið 1986 þannig að hér er um tiltölulega nýskilgreindan hóp að ræða.

Sæbjúgu finnst um öll heimsins höf, oftast á grunnsævi en þó lifa nokkrar tegundir á miklu dýpi. Þekktar eru um 1.100 tegundir sæbjúga

Sívöl líkamsbygging er eitt helsta einkenni þessa hóps skrápdýra. Dýrin eru afar misstór og geta verið á bilinu 2-200 cm á lengd og 1-20 cm á þykkt. Sæbjúgu eru yfirleitt svört, brún eða græn að lit en þó þekkjast mörg litaafbrigði. Innri stoðgrind hefur í þróunarsögunni minnkað mikið og er aðeins til staðar sem litlir hlutar á skinni dýrsins.

Yfirleitt eru dýrin með fimm raðir af pípufótum og nær hver röð frá munni, aftur að endaþarmi. Með þessum fótum geta sæbjúgun kraflað sig eftir sjávarbotninum líkt og krossfiskar og ígulker. Í kringum munninn eru þau með anga sem gegna því hlutverki að ná fæðu úr botnseti og bera hana í munninn.



Sæbjúga af tegundinni Cucumaria miniata.

Margt í líffræði þessara dýra hljómar afar undarlega. Meðal annars geta sæbjúgu losað sig við líffæri þurfi þau að villa um fyrir rándýrum en líffærin vaxa síðan aftur. Önnur vörn sem sæbjúgu hafa gegn afræningjum felst í því að seyta slími sem virðist rugla árásaraðilann í rýminu. Auk þess eru sæbjúgu þekkt fyrir að seyta vökva sem deyfir fisk og hafa eyjaskeggjar í Suður-Kyrrahafi notað vökvann til fiskveiða, en hann gerir mönnum ekki mein.

Perlufiskar (Carapus spp.) hafa nýtt sér þessa „hæfileika“ sæbjúgna til að verja sig og komið sér fyrir í líkamsholi þeirra þar sem þeir eru varðir fyrir ýmsum óvinum.

Talsverð hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum bæði í Asíu og Eyjaálfu og eru það aðallega stórvaxnar tegundir af ættkvíslunum Holothuria, Stichopus og Thelonota sem eru notaðar til matargerðar á þessum svæðum. Í Asíu eru sæbjúgu til dæmis matreidd í Kína, á Kóreuskaganum og í Japan. Dæmi um meðhöndlun er að reykja, þurrka eða sjóða holdið og nota sem bragðbæti í súpur. Löng hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum hjá fjölmörgum þjóðum í suðvestur Kyrrahafi, aðallega á Papúa Nýju-Gíneu og nálægum eyjum, og hafa þau verið mikilvæg verslunarvara í aldaraðir.

Spurt var hvort sæbjúgu geti eignast börn en væntanlega er átt við afkvæmi þar sem orðið börn er fyrst og fremst notað um afkvæmi manna. Sæbjúgu eignast afkvæmi líkt og aðrar lífverur jarðar. Flestar tegundir sæbjúgna eru einkynja og losa kynfrumur sínar í sjóinn þannig að frjóvgun verður útvortis. Eftir klak eggjanna gengur ungviðið í gegnum sviflægt lirfustig áður en það sest á sjávarbotninn og tekur á sig mynd fullorðins dýrs. Hjá nokkrum tegundum sæbjúgna fer frjóvgun þó fram innvortis þar sem lirfurnar klekjast út og þroskast áður en þær losna út í sjóinn.

Flestar tegundir sæbjúgna geta náð 5-10 ára aldri.

Sæbjúgu eru afar mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar þar sem þau éta mikið af rotnandi dýra og jurtaleifum. Rannsóknir hafa sýnt að á stórum hafsvæðum eru þau einn mikilvægasti hópur lífvera í því að koma lífrænum ögnum í botnsetinu aftur í umferð í fæðuhringrásinni.

Heimildir og myndir:
  • Barnes, R. 1987. Invertebrate Zoology. Orlando, Florida: Dryden Press.
  • Brusca, R., G. Brusca. 2003. Invertebrates. Sunderland, Massachusetts: Sinauer Associates, Inc.
  • Alaska Fisheries Science Center

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

18.5.2005

Spyrjandi

Elín Broddadóttir
Agnes Þorkelsdóttir
Unnur Haraldsdóttir
Linda Holm

Efnisorð

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sæbjúgu?“ Vísindavefurinn, 18. maí 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5006.

Jón Már Halldórsson. (2005, 18. maí). Hvað getið þið sagt mér um sæbjúgu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5006

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sæbjúgu?“ Vísindavefurinn. 18. maí. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5006>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um sæbjúgu?
Hér er einnig svarað spurningunum:

  • Hvað er sæbjúga?
  • Eru sæbjúgu fiskar eða gróður?
  • Hvað eru til margar tegundir af sæbjúgum?
  • Geta sæbjúgu eignast börn?
  • Hvað geta sæbjúgu orðið gömul?
  • Hvaða þjóðir borða helst sæbjúgu?
Sæbjúgu (Holothuroidea) eru hvorki gróður né fiskar heldur einn sex ættbálka innan fylkingu skrápdýra (Echinodermata). Aðrir hópar eru krossfiskar (Asteroidea), ígulker (Echinoidea), slöngustjörnur (Ophiuroidea), sæliljur (Crinoidea) og hópur sem á fræðimáli nefnist Concentricycloidea en hefur ekki fengið íslenskt heiti. Aðeins eru þekktar tvær tegundir í þessum síðastnefnda hópi og var sú fyrri uppgötvuð árið 1986 þannig að hér er um tiltölulega nýskilgreindan hóp að ræða.

Sæbjúgu finnst um öll heimsins höf, oftast á grunnsævi en þó lifa nokkrar tegundir á miklu dýpi. Þekktar eru um 1.100 tegundir sæbjúga

Sívöl líkamsbygging er eitt helsta einkenni þessa hóps skrápdýra. Dýrin eru afar misstór og geta verið á bilinu 2-200 cm á lengd og 1-20 cm á þykkt. Sæbjúgu eru yfirleitt svört, brún eða græn að lit en þó þekkjast mörg litaafbrigði. Innri stoðgrind hefur í þróunarsögunni minnkað mikið og er aðeins til staðar sem litlir hlutar á skinni dýrsins.

Yfirleitt eru dýrin með fimm raðir af pípufótum og nær hver röð frá munni, aftur að endaþarmi. Með þessum fótum geta sæbjúgun kraflað sig eftir sjávarbotninum líkt og krossfiskar og ígulker. Í kringum munninn eru þau með anga sem gegna því hlutverki að ná fæðu úr botnseti og bera hana í munninn.



Sæbjúga af tegundinni Cucumaria miniata.

Margt í líffræði þessara dýra hljómar afar undarlega. Meðal annars geta sæbjúgu losað sig við líffæri þurfi þau að villa um fyrir rándýrum en líffærin vaxa síðan aftur. Önnur vörn sem sæbjúgu hafa gegn afræningjum felst í því að seyta slími sem virðist rugla árásaraðilann í rýminu. Auk þess eru sæbjúgu þekkt fyrir að seyta vökva sem deyfir fisk og hafa eyjaskeggjar í Suður-Kyrrahafi notað vökvann til fiskveiða, en hann gerir mönnum ekki mein.

Perlufiskar (Carapus spp.) hafa nýtt sér þessa „hæfileika“ sæbjúgna til að verja sig og komið sér fyrir í líkamsholi þeirra þar sem þeir eru varðir fyrir ýmsum óvinum.

Talsverð hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum bæði í Asíu og Eyjaálfu og eru það aðallega stórvaxnar tegundir af ættkvíslunum Holothuria, Stichopus og Thelonota sem eru notaðar til matargerðar á þessum svæðum. Í Asíu eru sæbjúgu til dæmis matreidd í Kína, á Kóreuskaganum og í Japan. Dæmi um meðhöndlun er að reykja, þurrka eða sjóða holdið og nota sem bragðbæti í súpur. Löng hefð er fyrir neyslu á sæbjúgum hjá fjölmörgum þjóðum í suðvestur Kyrrahafi, aðallega á Papúa Nýju-Gíneu og nálægum eyjum, og hafa þau verið mikilvæg verslunarvara í aldaraðir.

Spurt var hvort sæbjúgu geti eignast börn en væntanlega er átt við afkvæmi þar sem orðið börn er fyrst og fremst notað um afkvæmi manna. Sæbjúgu eignast afkvæmi líkt og aðrar lífverur jarðar. Flestar tegundir sæbjúgna eru einkynja og losa kynfrumur sínar í sjóinn þannig að frjóvgun verður útvortis. Eftir klak eggjanna gengur ungviðið í gegnum sviflægt lirfustig áður en það sest á sjávarbotninn og tekur á sig mynd fullorðins dýrs. Hjá nokkrum tegundum sæbjúgna fer frjóvgun þó fram innvortis þar sem lirfurnar klekjast út og þroskast áður en þær losna út í sjóinn.

Flestar tegundir sæbjúgna geta náð 5-10 ára aldri.

Sæbjúgu eru afar mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar þar sem þau éta mikið af rotnandi dýra og jurtaleifum. Rannsóknir hafa sýnt að á stórum hafsvæðum eru þau einn mikilvægasti hópur lífvera í því að koma lífrænum ögnum í botnsetinu aftur í umferð í fæðuhringrásinni.

Heimildir og myndir:
  • Barnes, R. 1987. Invertebrate Zoology. Orlando, Florida: Dryden Press.
  • Brusca, R., G. Brusca. 2003. Invertebrates. Sunderland, Massachusetts: Sinauer Associates, Inc.
  • Alaska Fisheries Science Center
...