Þýskir þjóðernissinnar notuðu hakakrossinn við ýmis tækifæri áður en hann var gerður að tákni nasistaflokksins á flokksþingi í Salzburg 7. ágúst 1920. Samkvæmt Hitler táknaði hið rauða í fána flokksins félagslega samhjálp, hið hvíta þjóðlega samstöðu en hakakrossinn yfirburði Indó-Evrópumanna yfir semítum (gyðingum og aröbum). Á fyrri hluta 20. aldar var hakakrossinn vinsæll hjá ýmsum öðrum en nasistum, meðal annars vegna áhrifa Schliemanns. Krossinn var notaður til merkja hitt og þetta, svo sem mynt, póstkort og byggingar. Breski rithöfundurinn Rudyard Kipling (1865-1936), sem dáðist að indverskri menningu, merkti allar bækur sínar með tákninu. Bandaríska guðspekifélagið tók hakakrossinn upp sem sitt tákn, ásamt krossi og Davíðsstjörnu. Einnig tók 45. herdeild Bandaríkjahers upp þetta merki, trúlega vegna vinsælda þess meðal Navajo-indíána. Finnski loftherinn notaði það milli 1918 og 1944 og sumar herdeildir nota það enn. Skátahreyfingin notaði þetta tákn fram til 1935. Á Íslandi var hakakross með óvenjustuttum örmum lengi hluti af merki Eimskipafélags Íslands. Vegna óheppilegra tengsla hakakrossins við nasisma er nú bannað með lögum að sýna merkið í Þýskalandi. Þetta hefur orsakað vandamál varðandi hof hindúa, búddista og jainista, þar sem táknið er iðulega notað. Þá hefur einnig komið til tals að banna þetta útbreidda og forna tákn innan Evrópusambandsins. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Er til trúartákn í íslam hliðstætt krossinum í kristinni trú? eftir Harald Ólafsson.
- Hvaða tilgangi þjónaði þýski örninn? Var hann til dæmis í skjaldarmerki Þýskalands? eftir Peter Weiss.
- Hvers vegna er kross tákn kristninnar? eftir Hjalta Hugason.
- Steven Heller, The swastika: A symbol beyond redemption? New York, 2000.
- Malcolm Quinn, The swastika: Constructing the symbol, London, 1994.
- Carl Sagan og Ann Druyan, Comet, New York, 1985.
- Thomas Wilson, „The swastika: The earliest known symbol, and its migrations; with observations on the migration of certain industries in prehistoric times“, Annual report of the board of regents of the Smithsonian institution, Washington, 1896.
- Wikipedia.com - swastika. Sótt 19.7.2010.
- Wikipedia.com - flokksþing nasista. Sótt 19.7.2010.
Hver er uppruni krossins sem var merki Eimskipafélags Íslands og hvernig er það öðruvísi en hakakross nasista?