Kvikasilfurssambönd eru af ýmsum gerðum. Sýnt hefur verið fram á að metýl-kvikasilfur sem fyrirfinnst í náttúrunni og menguðum matvælum getur verið skaðlegt heilsu manna. Það form af kvikasilfri er hins vegar ekki í thiomersal heldur etýl-kvikasilfur sem hefur allt aðra eiginleika og er ekki skaðlegt heilsu manna í því litla magni sem fyrirfinnst í bóluefnum. Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á thiomersal í bóluefnum og engin rannsókn hefur sýnt að það sé skaðlegt. Flest bóluefni innihalda svokallaða ónæmisglæða sem örva ónæmissvar þegar bólusett er. Þessir ónæmisglæðar eru oft nauðsynlegir og rannsóknir hafa ekki sýnt nein skaðleg áhrif af þeirra völdum. Ekki hefur verið sýnt fram á að árlegar bólusetningar valdi uppsöfnun á efnum sem leiða til skaða. Þvert á móti vernda bóluefnin vel gegn skaðlegum áhrifum sýkinga. Lesa má meira um öryggi bóluefna á vef Landlæknisembættisins. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað mælir með því og móti að bólusetja börn? eftir Harald Briem
- Hver var Louis Pasteur og hvað gerði hann merkilegt? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Er eitthvað til í því að bóluefni innihaldi kvikasilfur og önnur óæskileg efni til að auka á upptöku bóluefnisins? Ef rétt er að bóluefni innihaldi kvikasilfur, er það í því magni að rétt sé að huga að því hversu oft farið sé í bólusetningu. Gæti árleg bólusetning m.ö.o. á endanum valdið eitrun?