Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Höfundur þessa svars hefur þegar fjallað um heimspeki Platons í nokkrum svörum hér á Vísindavefnum. Í svarinu Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól? gerir hann grein fyrir frægustu kenningu Platons, frummyndakenningunni. Um þekkingarfræði Platons er svo fjallað í svarinu Hvað hafði Platon að segja um viskuna og þekkinguna? Hér að neðan er svo greint frá hugmyndum Platons um siðferði, sálfræði og stjórnspeki. Einnig má nefna að Platon tileinkaði sér gjarnan sókratíska spurnaraðferð, eða elenkos-aðferðina, sem höfundur fjallar meira um í svari við spurningunni „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið?Siðfræði
Platon þáði siðfræðiáhuga sinn í arf frá læriföður sínum, Sókratesi, sem oft er sagður fyrsti siðfræðingurinn (þótt Demókrítos, sem var samtímamaður Sókratesar, hafi raunar einnig fengist við siðfræði). Sókrates á að hafa haldið því fram að enginn væri vísvitandi illur og að dygð væri þekking, það er að segja að það að vera dygðugur væri fólgið í því að búa yfir þekkingu. Platon virðist hafa gælt við þessa hugmynd um hríð og í nokkrum samræðum, einkum eldri samræðum, má finna það sem nefnt hefur verið kenningin um einingu dygðanna. Samkvæmt einni túlkun kveður hún á um að í raun séu dygðirnar allar ein og sama dygðin, nefnilega þekking. Dygðin er nefnd ólíkum nöfnum (hugrekki, réttlæti og svo framvegis) vegna þess að birtingarmyndir hennar eru ólíkar í mismunandi aðstæðum.
Réttlæti, þar sem hið góða og hið illa er vegið og metið, er aðeins tiltekin birtingarmynd hinnar einu sönnu dyggðar, þekkingarinnar.
Samkvæmt annarri túlkun er ekki um bókstaflega samsemd dygðanna að ræða heldur eru dygðirnar margar og ólíkar. Einingin er fólgin í því að þær fylgjast að – og þekking er nauðsynleg forsenda þess að geta verið dygðugur yfirleitt. Sá sem hefur þekkinguna er öllum dygðum prýddur.
Kenningin um einingu dygðanna gæti hafa verið meginhugmynd Platons í siðfræði um tíma. En Platon hélt því ekki einungis fram að dygð, eins og til dæmis réttlæti, væri fólgin í því að búa yfir þekkingu. Í samræðunni Gorgías verður nefnilega til sú hugmynd að ranglæti sé ekki bara skortur á þekkingu heldur einhvers konar sjúkdómur sálarinnar. Í einu frægasta riti sínu, Ríkinu, sem er ritað á miðjum ferli Platons, reyndi Platon að gera grein fyrir réttlæti sem ástandi sálarinnar. Þar sem ranglætið skaðar sál manns er betra að þurfa að þola ranglæti af hálfu annars en að verða sjálfur ranglátur.
Þá ber að geta frummyndakenningarinnar svonefndu en hún var allsherjarkenning sem gegndi í senn frumspekilegu, þekkingarfræðilegu, siðfræðilegu og jafnvel merkingarfræðilegu hlutverki og útskýrði meðal annars undirstöður siðferðisins. Um frummyndakenninguna er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Eru menn aðeins eftirmyndir af hinum fullkomna manni eða konu, líkt og málverk af stól er aðeins eftirmynd af einhverjum ákveðnum stól?Sálfræði
Platon kynntist pýþagóringum síns tíma og varð fyrir töluverðum áhrifum frá hugmyndum þeirra. Djúptækustu áhrifin höfðu pýþagóringar sennilega á hugmyndir Platons um sálina.
Gríska orðið sem er þýtt ‘sál’ er psyche. Í kviðum Hómers frá 8. öld f.Kr., Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu, er orðið einkum notað um einhvers konar lífsanda; sálin greinir að lifandi líkama frá dauðum. Á 7. og 6. öld f.Kr. víkkaði merking orðsins nokkuð. Farið var að líta á sálina sem aðsetur persónuleikans, sem sjálf manns. Pýþagóringar og aðrir töldu að sálin lifði af dauða líkamans og gæti endurfæðst í öðrum líkama. Heimspekingurinn Empedókles frá Akragas (um 490-430 f.Kr.) hélt því til að mynda fram að hann hefði áður verið til sem stúlka, fugl og fiskur og meira að segja runni.
Í samræðunni Fædon, þar sem síðustu stundum og dauða Sókratesar er lýst, ver Sókrates ódauðleika sálarinnar en hrekur kenningar þeirra Simmíasar og Kebesar sem óttast hið gagnstæða. Hugmyndir af þessu tagi koma ekki fram í elstu samræðunum en samskonar hugmyndir um ódauðleika sálarinnar og endurfæðingu hennar má finna í ýmsum öðrum samræðum, til dæmis Ríkinu og Fædrosi sem ritaðar eru á miðjum ferli Platons og Tímajosi og Lögunum sem Platon ritaði seint á ævinni. Frekar má fræðast um rit Platons í svari höfundar við spurningunni Hver eru helstu ritverk Platons?
Platon trúði á þrískiptingu sálarinnar.
Ein frægasta umfjöllun Platons um sálina er í Ríkinu en þar er sett fram kenning um þrískiptingu sálarinnar. Sálin er sögð hafa þrjá hluta, skynsemi, skap og löngun. Skynsemin sækist eðli sínu samkvæmt eftir sannleika og þekkingu og eftir því að stjórna, skapið sækist eftir heiðri og viðurkenningu og löngunin sækist eftir mat, drykk og kynlífi. Sömuleiðis hafa hlutar sálarinnar ólíkar dygðir. Viskan er dygð skynsemishlutans, hugrekki dygð skapsins og hófsemi er dygð löngunarinnar. Réttlætið, sem er fjórða og síðasta höfuðdygðin, er svo fólgið í því að hver hluti vinni sitt verk.
Stjórnspeki
Margt hefur verið ritað og rætt um stjórnspeki Platons. Frægasta rit hans sem snertir stjórnspeki er Ríkið. Þar ræðir Sókrates lengst við þá Glákon og Adeimantos, sem voru bræður Platons, og umræðuefnið er réttlæti. Sókrates bendir á að bæði sé talað um að fólk sé réttlátt og að heil ríki séu réttlát og bætir við að auðveldara sé að koma auga á réttlætið í stóru en smáu. Þess vegna hefja þeir leit að réttlæti í ríkinu en hyggjast síðar finna hliðstæðu þess í mannssálinni. Þeir ímynda sér algerlega réttlátt ríki, fyrirmyndarríki sem þeir kalla Fögruborg.
Í Fögruborg ríkir römm stéttaskipting. Þorri manna sinnir hinum ýmsu störfum þjóðfélagsins og framleiðir það sem ríkið þarfnast, allt eftir hæfileikum hvers og eins. Hraustir og dugandi hermenn annast varnir ríkisins og löggæslu og menntaðir heimspekingar skiptast á að sjá um að stjórna því. Heimspekingar og stjórnendur er engu síður konur en karlar enda taldi Platon að enginn mikilvægur munur væri á eðli kynjanna. Ólíkar dygðir einkenna hverja stétt. Viskan einkennir stjórnendurna, hugrekkið varðmennina og hófsilling einkennir almenning. Réttlætið í þessu öllu er síðan í því fólgið að hver uni við sitt.
Fagraborg er ekki lýðræðisríki. Almenningur ræður engu um stjórn ríkisins heldur ráða heimspekingarnir öllu. Platoni var alla tíð nokkuð í nöp við lýðræði sem hann þekkti aðeins af illu. Til að mynda voru það lýðræðissinnar sem létu taka Sókrates, læriföður Platons, af lífi fyrir að hafa siðspillandi áhrif. Platon trúði því ætíð að skynsemin ætti að ráða, bæði í einkalífi manna og í stjórn ríkisins. Hann hafði aftur á móti afar takmarkaða trú á skynsemi almúgans enda hafði hann séð hversu áhrifagjarn almenningur var og hvernig múgæsingur gat gripið um sig með slæmum afleiðingum. Þó virðist sem viðhorf Platons til lýðræðisins hafi mildast nokkuð í ellinni.
Ekki er að sjá að Platon hafi talið fyrirkomulag Fögruborgar raunhæfan kost sem hrinda mætti í framkvæmd. Í yngri ritum á borð við Stjórnvitringinn og Lögin er Platoni meðal annars ljóst að enginn kostur er á fullkomnum stjórnendum og að einhver lög verða að gilda um stjórn landsins til þess að tryggja að ekki verði til harðstjórn. Í Lögunum er svo lýst öðru fyrirmyndarríki sem ber heitið Magnesía. Þar er stéttaskipting fremur lítil og almennir borgararnir, að undanskildum þrælum og útlendingum, njóta nokkurra réttinda. Dómskerfið var Platoni líka hugleikið en í Lögunum koma meðal annars fram hugmyndir um áfrýjunardómstól. Sagt hefur verið að Platon sé einn af helstu upphafsmönnum hugmynda um réttarríki.
Heimildir og frekari fróðleikurÁ vefnum
Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5377.
Geir Þ. Þórarinsson. (2005, 3. nóvember). Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5377
Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5377>.