Marglyttur hafa aðeins tvö frumulög. Yst er frumulag sem nefnist útlag (e. epidermis). Þar eru ýmsar gerðir skynfruma sem nema upplýsingar frá umhverfi marglyttunnar. Þar eru líka brennifrumur eða stingfrumur sem geta valdið sviða þegar marglyttan er snert. Meltingarholið er hins vegar umlukið frumulagi sem mætti kalla innlag (e. gastrodermis). Á milli þessara laga er svokallað miðhlaup (e. mesoglea), hlaupkennt lag sem er misþykkt eftir tegundum holdýra.Inni í sérhæfðu brenni- eða stingfrumunum (e. cnidocytes) er svokallað stinghylki (e. nematocyst). Þegar fruman er látin óáreitt er hylkið samanvafið inni í frumunni. Ef stingfruman verður hins vegar fyrir áreiti, það er að segja ef eitthvert utanaðkomandi fyrirbæri rekst í gikkinn sem liggur utan á frumunni, þá umskautast fruman og stinghylkið skýst út. Marglyttur nota stinghylkið bæði til veiða og í sjálfsvörn. Marglyttur eru skæðir afræningjar. Þær veiða ýmsar lífverur, sér í lagi aðrar marglyttur. Á matseðli marglyttna eru einnig sviflægar krabbaflær, hrogn og fisklirfur auk þess sem smáfiskar falla í valinn fyrir stærstu marglyttum. Fjölmargar tegundir dýra veiða marglyttur, til að mynda túnfiskar, sverðfiskar, hákarlar og sæskjaldbökur. Klumbudragan (Caretta caretta) er til dæmis kunn fyrir að leggja sér til munns stórvaxið sambýli holdýra sem ber hið einkennilega heiti portúgalskt herskip og er reyndar sambú holdýra af tegundinni Physalia physalis. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Úr hverju eru marglyttur? eftir JMH
- Eru til margar gerðir af marglyttum? Eru þær miseitraðar og hvers vegna svíður okkur í hörundið undan þeim? eftir Jón Má Halldórsson
- Af hverju brennir maður sig stundum á marglyttum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað eru amerískar risahveljur? eftir JMH og MBS
- Hvað eru hryggleysingjar og hver eru helstu einkenni þeirra? eftir Jón Má Halldórsson