Ólíkt mörgum öðrum kattardýrum er sandkötturinn lélegt klifurdýr. Hins vegar er hann mjög duglegur að grafa og leitar skjóls undan hitanum í grunnum holum eða bælum. Líkt og flestar kattategundir eru sandkettir miklir einfarar en þó er þekkt að þeir deili bæli með öðrum einstaklingum sömu tegundar. Þeir virðast því geta umborið návist annarra katta þegar kemur að því að takast á við hinn mikla hita eyðimerkurinnar. Sandkettir eru næturdýr en deilitegund sem lifir í Pakistan hefur þó það háttalag að vera næturdýr á sumrin en er á ferli að deginum til á veturna. Mjög erfitt er að stunda rannsóknir á sandkettinum úti í náttúrunni. Hann hefur mjög þróuð skynfæri og er duglegur að fela sig og það gerir vísindamönnum mjög erfitt að nálgast hann. Einnig veldur það vandkvæðum að hann finnst dreifður á afar stórum svæðum. Sandkötturinn er sagður eiga það til að loka augunum og liggja grafkyrr þegar menn nálgast hann að næturlagi. Þannig fellur hann fullkomlega að umhverfinu og erfitt er að sjá hann við slíkar aðstæður. Grunnupplýsingar um tegundina, svo sem um stofnstærð og fleiri þætti, eru því takmarkaðar og þar af leiðandi er erfitt að meta hve stór stofninn er, hvort hann er í vexti eða honum hraki. Á Vísindvefnum eru fjölmörg svör um kattardýr, til dæmis:
- Af hvaða dýri er kötturinn kominn?
- Hvað eru til margar hunda- og kattategundir í heiminum?
- Geta stórkettir malað eins og venjulegir litlir kettir?
- Bunaian, F., S. Mashaqbeh, M. Yousef, A. Buduri, Z. Amr. 1998. A new record of the Sand Cat, Felis margarita, from Jordan. Zoology in the Middle East, 16: 5-7.
- Cunningham, P. 2002. Status of the Sand Cat, Felis margarita, in the United Arab Emirates. Zoology in the Middle East, 25: 9-14.
- IUCN World Conservation Union. 1996. Sand Cat Felis margarita Locke 1858. IUCN World Conservation Union.
- IUCN Red List of Threatened Species: Felis margarita
- Mynd: Sand Cat á Wikipedia