Innflutningur skriðdýra og ýmissa annarra framandi smádýra er alltaf öðru hvoru til skoðunar hjá þar til bærum heilbrigðisyfirvöldum. Vinsældir skriðdýra sem gæludýra koma í bylgjum og eykst þá þrýstingur á að leyfa innflutning og jafnframt fer að bera á smygli slíkra dýra. Fyrir rúmum áratug ákváðu dýralæknayfirvöld og ráðuneyti að gera tilraun til að slá á svartamarkaðsbrask með eðlur sem þá náði nýjum hæðum og jafnframt að fá alla sölu og dreifingu þessara gæludýra upp á borðið. Þekktur ræktandi á Bretlandseyjum fullyrti að hann gæti útvegað eðlur sem væri búið að losa við salmonellusmit og rækta þannig kynslóð fram af kynslóð. Verslun á höfuðborgarsvæðinu flutti inn um 420 eðlur (iguana og leopard gecko) og með þeim fylgdi heilbrigðisvottorð undirritað af þarlendum yfirvöldum þar sem staðfest var að dýrin væru laus við salmonellu. Eftir þrjár vikur í sóttkví voru tekin sýni til ræktunar og kom þá í ljós að öll sýni reyndust bullandi jákvæð gagnvart Salmonella typhimurium. Þessi innflutningstilraun mistókst því með öllu og var dýrunum fargað og eytt. Eins og kunnugt er, meðal annars af fjölmiðlaumfjöllun, koma skriðdýr alltaf öðru hvoru til kasta bæði heilbrigðis- og lögregluyfirvalda. Slíkum dýrum ber að farga og eyða af öryggisástæðum og er þá í langflestum tilfellum framkvæmd rannsókn á mögulegu salmonellusmiti á Keldum. Nær undantekningarlaust greinist ein eða fleiri áðurnefndra salmonellutegunda. Nýjasta dæmið er þegar lögreglan í Hafnarfirði gerði upptækan fjöldann allan af snákum, skordýrum og tarantúlu-kóngulóm þann 1. júlí 2009. Snákarnir voru alls fimm af fjórum mismunandi tegundum og við rannsókn á Keldum og sýkladeild LSH kom í ljós að allir voru þeir smitaðir af Salmonella cholerasuis. Þess skal getið að full heimild er fyrir innflutningi á froskum og salamöndrum, enda samsetning þarmaflóru þeirra með öðru sniði. Hægt er að lesa meira um innflutning dýra og þau lög sem um það gilda í svari við spurningunni Hvaða reglur gilda um innflutning dýra til landsins? Mynd: Florida Department of Health. Sótt 14. 12. 2009.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
- Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður og hvernig hljóða þau lög nákvæmlega?
- Getið þið gefið mér markverða ástæðu á því af hverju skriðdýrahald er bannað á íslandi?
Þetta svar er styttur texti af vef Matvælastofnunar og birtur með góðfúslegu leyfi.