Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður?

Matvælastofnun

Almennt bann hefur ríkt við innflutningi skriðdýra á borð við slöngur, skjaldbökur og eðlur frá því snemma á 9. áratug síðustu aldar. Bannið byggði upphaflega á alvarlegum sjúkdómstilfellum í fólki af völdum salmonellusmits sem rekja mátti með ótvíræðum hætti til þessara gæludýra.

Árið 1983 kom upp sýking af völdum Salmonella paratyphi B (sem veldur taugaveikibróður) á heimili í Reykjavík sem grunur lék á að væri af völdum smits frá vatnaskjaldböku. Sú grunsemd reyndist á rökum reist og ræktaðist bakterían úr vatni, fiskabúri og úr skjaldböku heimilisins. Við nánari rannsókn í gæludýraverslunum á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós mikil mengun með Salmonella paratyphi B í fiskabúrum verslananna og í skjaldbökum sem þær höfðu til sölu. Í einni verslun fannst einnig Salmonella arizona. Í framhaldi af þessum niðurstöðum bárust alls 290 skjaldbökur til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum frá 183 heimilum víðsvegar að af landinu. Alls greindust salmonellusýklar í skjaldbökum frá 55 þessara heimila (30%).

Rannsóknir hafa leitt í ljós að allt að 94% ofangreindra skriðdýra eru frískir smitberar salmonellu. Ótal undirtegundir bakteríunnar eiga í hlut, svo sem emS. paratyphi B., S. arizona, S. typhimurium, S. enteritidis, S. adelaide, S. cholerasuis, S. bovis morbificans og S. newport. Allar þessar undirtegundir eiga það sammerkt að vera svokallaðar súnur (e. zoonosis), það er að segja geta smitað bæði dýr og menn.



Meginástæðan þess að ekki má flytja inn slöngur eða önnur skriðdýr er sú að talin er mikil hætta á að salmonellusmit fylgi þeim.

Innflutningur skriðdýra og ýmissa annarra framandi smádýra er alltaf öðru hvoru til skoðunar hjá þar til bærum heilbrigðisyfirvöldum. Vinsældir skriðdýra sem gæludýra koma í bylgjum og eykst þá þrýstingur á að leyfa innflutning og jafnframt fer að bera á smygli slíkra dýra.

Fyrir rúmum áratug ákváðu dýralæknayfirvöld og ráðuneyti að gera tilraun til að slá á svartamarkaðsbrask með eðlur sem þá náði nýjum hæðum og jafnframt að fá alla sölu og dreifingu þessara gæludýra upp á borðið. Þekktur ræktandi á Bretlandseyjum fullyrti að hann gæti útvegað eðlur sem væri búið að losa við salmonellusmit og rækta þannig kynslóð fram af kynslóð. Verslun á höfuðborgarsvæðinu flutti inn um 420 eðlur (iguana og leopard gecko) og með þeim fylgdi heilbrigðisvottorð undirritað af þarlendum yfirvöldum þar sem staðfest var að dýrin væru laus við salmonellu. Eftir þrjár vikur í sóttkví voru tekin sýni til ræktunar og kom þá í ljós að öll sýni reyndust bullandi jákvæð gagnvart Salmonella typhimurium. Þessi innflutningstilraun mistókst því með öllu og var dýrunum fargað og eytt.

Eins og kunnugt er, meðal annars af fjölmiðlaumfjöllun, koma skriðdýr alltaf öðru hvoru til kasta bæði heilbrigðis- og lögregluyfirvalda. Slíkum dýrum ber að farga og eyða af öryggisástæðum og er þá í langflestum tilfellum framkvæmd rannsókn á mögulegu salmonellusmiti á Keldum. Nær undantekningarlaust greinist ein eða fleiri áðurnefndra salmonellutegunda. Nýjasta dæmið er þegar lögreglan í Hafnarfirði gerði upptækan fjöldann allan af snákum, skordýrum og tarantúlu-kóngulóm þann 1. júlí 2009. Snákarnir voru alls fimm af fjórum mismunandi tegundum og við rannsókn á Keldum og sýkladeild LSH kom í ljós að allir voru þeir smitaðir af Salmonella cholerasuis.

Þess skal getið að full heimild er fyrir innflutningi á froskum og salamöndrum, enda samsetning þarmaflóru þeirra með öðru sniði.

Hægt er að lesa meira um innflutning dýra og þau lög sem um það gilda í svari við spurningunni Hvaða reglur gilda um innflutning dýra til landsins?

Mynd: Florida Department of Health. Sótt 14. 12. 2009.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
  • Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður og hvernig hljóða þau lög nákvæmlega?

Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Getið þið gefið mér markverða ástæðu á því af hverju skriðdýrahald er bannað á íslandi?


Þetta svar er styttur texti af vef Matvælastofnunar og birtur með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Útgáfudagur

15.12.2009

Spyrjandi

Vigdís Andersen, Jóhann Helgi Sveinsson

Tilvísun

Matvælastofnun. „Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður?“ Vísindavefurinn, 15. desember 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=53115.

Matvælastofnun. (2009, 15. desember). Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=53115

Matvælastofnun. „Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður?“ Vísindavefurinn. 15. des. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=53115>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður?
Almennt bann hefur ríkt við innflutningi skriðdýra á borð við slöngur, skjaldbökur og eðlur frá því snemma á 9. áratug síðustu aldar. Bannið byggði upphaflega á alvarlegum sjúkdómstilfellum í fólki af völdum salmonellusmits sem rekja mátti með ótvíræðum hætti til þessara gæludýra.

Árið 1983 kom upp sýking af völdum Salmonella paratyphi B (sem veldur taugaveikibróður) á heimili í Reykjavík sem grunur lék á að væri af völdum smits frá vatnaskjaldböku. Sú grunsemd reyndist á rökum reist og ræktaðist bakterían úr vatni, fiskabúri og úr skjaldböku heimilisins. Við nánari rannsókn í gæludýraverslunum á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós mikil mengun með Salmonella paratyphi B í fiskabúrum verslananna og í skjaldbökum sem þær höfðu til sölu. Í einni verslun fannst einnig Salmonella arizona. Í framhaldi af þessum niðurstöðum bárust alls 290 skjaldbökur til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum frá 183 heimilum víðsvegar að af landinu. Alls greindust salmonellusýklar í skjaldbökum frá 55 þessara heimila (30%).

Rannsóknir hafa leitt í ljós að allt að 94% ofangreindra skriðdýra eru frískir smitberar salmonellu. Ótal undirtegundir bakteríunnar eiga í hlut, svo sem emS. paratyphi B., S. arizona, S. typhimurium, S. enteritidis, S. adelaide, S. cholerasuis, S. bovis morbificans og S. newport. Allar þessar undirtegundir eiga það sammerkt að vera svokallaðar súnur (e. zoonosis), það er að segja geta smitað bæði dýr og menn.



Meginástæðan þess að ekki má flytja inn slöngur eða önnur skriðdýr er sú að talin er mikil hætta á að salmonellusmit fylgi þeim.

Innflutningur skriðdýra og ýmissa annarra framandi smádýra er alltaf öðru hvoru til skoðunar hjá þar til bærum heilbrigðisyfirvöldum. Vinsældir skriðdýra sem gæludýra koma í bylgjum og eykst þá þrýstingur á að leyfa innflutning og jafnframt fer að bera á smygli slíkra dýra.

Fyrir rúmum áratug ákváðu dýralæknayfirvöld og ráðuneyti að gera tilraun til að slá á svartamarkaðsbrask með eðlur sem þá náði nýjum hæðum og jafnframt að fá alla sölu og dreifingu þessara gæludýra upp á borðið. Þekktur ræktandi á Bretlandseyjum fullyrti að hann gæti útvegað eðlur sem væri búið að losa við salmonellusmit og rækta þannig kynslóð fram af kynslóð. Verslun á höfuðborgarsvæðinu flutti inn um 420 eðlur (iguana og leopard gecko) og með þeim fylgdi heilbrigðisvottorð undirritað af þarlendum yfirvöldum þar sem staðfest var að dýrin væru laus við salmonellu. Eftir þrjár vikur í sóttkví voru tekin sýni til ræktunar og kom þá í ljós að öll sýni reyndust bullandi jákvæð gagnvart Salmonella typhimurium. Þessi innflutningstilraun mistókst því með öllu og var dýrunum fargað og eytt.

Eins og kunnugt er, meðal annars af fjölmiðlaumfjöllun, koma skriðdýr alltaf öðru hvoru til kasta bæði heilbrigðis- og lögregluyfirvalda. Slíkum dýrum ber að farga og eyða af öryggisástæðum og er þá í langflestum tilfellum framkvæmd rannsókn á mögulegu salmonellusmiti á Keldum. Nær undantekningarlaust greinist ein eða fleiri áðurnefndra salmonellutegunda. Nýjasta dæmið er þegar lögreglan í Hafnarfirði gerði upptækan fjöldann allan af snákum, skordýrum og tarantúlu-kóngulóm þann 1. júlí 2009. Snákarnir voru alls fimm af fjórum mismunandi tegundum og við rannsókn á Keldum og sýkladeild LSH kom í ljós að allir voru þeir smitaðir af Salmonella cholerasuis.

Þess skal getið að full heimild er fyrir innflutningi á froskum og salamöndrum, enda samsetning þarmaflóru þeirra með öðru sniði.

Hægt er að lesa meira um innflutning dýra og þau lög sem um það gilda í svari við spurningunni Hvaða reglur gilda um innflutning dýra til landsins?

Mynd: Florida Department of Health. Sótt 14. 12. 2009.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
  • Hvers vegna er innflutningur skriðdýra til Íslands bannaður og hvernig hljóða þau lög nákvæmlega?

Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Getið þið gefið mér markverða ástæðu á því af hverju skriðdýrahald er bannað á íslandi?


Þetta svar er styttur texti af vef Matvælastofnunar og birtur með góðfúslegu leyfi....