Ég var í líffræðitíma og kennarinn sagði okkur frá bláu fólki sem fannst. Hvað olli því að fólkið var blátt? Var það kannski skyldleikaræktun?Spyrjandi er líklega að tala um Fugate-ættina í Kentucky, Bandaríkjunum. Margt fólk úr Fugate-ættinni þjáðist af erfðasjúkdómi, svokölluðum arfgengum methemóglómíndreyra (methemoglobinemia), sem gerði það að verkum að það varð bláleitt á hörund. Til að sjúkdómurinn komi fram þarf fólk að vera arfhreint, það er það þarf að erfa þau gen sem sjúkdómnum valda frá báðum foreldrum. Líkur á að þetta gerist aukast til muna við skyldleikaræktun, því séu foreldrarnir skyldir hafa þeir að jafnaði fleiri gen sameiginleg. Fugate-ættin bjó einmitt á einangruðu svæði uppi á fjöllum og kostir í makavali voru afar takmarkaðir. Því var mikið um að mjög skyldir einstaklingar eignuðust saman börn, sem jók svo aftur líkurnar á sjúkdómnum.
Ættartré Lunu Fugate (f. 1889) sýnir hversu algengt var að skyldmenni eignuðust saman afkvæmi. Bláskyggðir reitir gefa til kynna fólk með methemóglóbíndreyra, og reitir með bláum punkti sýna þá arfbera sjúkdómsins sem vitað er um.
- Trost, C. (1982) The blue people of Troublesome creek. Science, 82.
- Adams, C. (1998). Is there really a race of blue people? The Straight Dope.
- Kumar, M. og Verive, M. (2003) Methemoglobinemia. eMedicine.
- Methemoglobinemia. Encyclopædia Britannica Online.
- Mynd af bláu fólki er af The blue people are coming, the blue people are coming. TIP group 1B.
- Ættartré Lunu er af Pedigree of Luna Fugate. Robert J. Huskey (1998).