Melanesía, sem er norðaustur af Ástralíu, er næstfjölmennasta svæðið í Eyjaálfu með tæplega 7,4 milljónir íbúa. Fjölmennasta land Melanesíu er Papúa Nýja-Gínea þar sem búa rúmlega 5,5 milljónir manna en þar á eftir koma Fídjieyjar með tæplega 900.000 íbúa og Salómonseyjar þar sem búa um 540.000 manns. Nafn Melanesíu er dregið af grísku orðunum ‘melas’ sem þýðir svartur og ‘nesoi’ sem þýðir eyjar. Míkrónesía kallast svæði sem er norðan Melanesíu og austan Filippseyja og merkir nafn þess ‘litlar eyjar’. Af þessum fjórum svæðum Eyjaálfu er Míkrónesía fámennast með um 552.000 íbúa. Eyjan Gvam er fjölmennasta eyjan í Míkrónesíu en þar búa tæplega 169.000 manns. Þar á eftir koma Kíribatí og Míkrónesía (ekki svæðið heldur ríki sem kallast Federated States of Micronesia á ensku en Íslensk málstöð mælir með að sé kallað Míkrónesía á íslensku) en á báðum þessum eyjaklösum búa rúmlega 100.000 manns. Fámennasta ríki Míkrónesíu er hins vegar Nárú en íbúar þessa fámennasta lýðveldis á jörðinni eru aðeins um 13.000 talsins. Nýja-Sjáland, Hawaii-eyjar og Páskaeyja afmarka Pólýnesíu, þríhyrningslaga svæði í austurhluta Kyrrahafs. Nafnið er dregið af grísku orðunum ‘poly’ sem þýðir margir og ‘nesoi’ sem stendur fyrir eyjar eins og áður sagði. Menningarlega eru Nýja-Sjáland og Hawaii hlutar Pólýnesíu en í heimildum þar sem fjallað er um lýðfræði, til dæmis á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, er Nýja-Sjáland gjarnan flokkað með Ástralíu og Hawaii með Norður-Ameríku, enda er eyjaklasinn eitt af fylkjum Bandaríkjanna. Pólýnesía er aðeins fjölmennari en Míkrónesía þar sem íbúar þeirra eyjaklasa sem teljast til svæðisins eru um 670.000. Franska Pólýnesía er fjölmennasti eyjaklasinn með rúmlega 270.000 íbúa en þar á eftir koma Samóa-eyjar með 177.000 íbúa og Tonga þar sem búa um 112.000 manns. Fámennust er hins vegar Pitcairn-eyja í samnefndum eyjaklasa þar sem íbúar eru innan við 50 talsins. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um heimsálfurnar eftir sama höfund, til dæmis:
- Hvernig eru nöfn heimsálfanna til komin?
- Hvaða lönd teljast til Evrópu?
- Hvað búa margir í Evrópu?
- Hvað eru mörg lönd i Afríku?
- Hversu margir búa í Afríku?
- Hvers vegna er Suðurskautslandið talið heimsálfa en ekki norðurskautið?
- Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku?