Hér við land eru stórir fiskistofnar sem halda til innan fiskveiðilögsögunnar svo sem þorskur (Gadus morhua), ýsa (Melanogrammus aeglefinus), ufsi (Pollachius virens), skötuselur (Lophus piscatorius), steinbítur og fjölmargar flatfisktegundir. Aðrir stofnar, og þá sérstaklega uppsjávarfisktegundir eins og norsk-íslensk síld (Clupea harengus) og kolmunni (Micromesistius poutassou) og hin síðari ár makríll (Scomber scombus), ganga inn og út úr lögsögunni. Það er nokkuð breytilegt eftir tegundum hvar helstu fiskimiðin er að finna. Í umfjölluninni hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir hvar mest veiðist af helstu nytjafistegundum okkar Íslendinga. Þorskmið Myndin hér fyrir neðan sýnir þorskafla á hverja sjómílu (tonn/sjm2) árið 2007. Þar sést glögglega hvar helstu þorskmið Íslendinga eru. Þau eru á Halamiðum norðvestur af Vestfjörðum, í Kolluáli sem er við utanvert Snæfellsnes, við Reykjanesskaga og Lónsdjúp. Auk þess eru gjöful þorskmið í utanverðum Eyjafirði. Þorskurinn veiðist þó allt í kringum landið.
Ýsumið Ýsa veiðist allt í kringum landið en þó síst við Norðausturland. Undanfarin ár hafa helstu fiskimið ýsu verið í Kolluáli, undan Garðskaga og á Lónsdjúpi.
Gullkarfamið Gullkarfamiðin eru einkum í landgrunnskantinum og mest er sótt og veitt djúpt suðvestur af Reykjanesi, til dæmis í Skerjadýpi. Karfinn er hins vegar lítið sem ekkert veiddur fyrir norðan og austan land.
Síldarmið Það er nokkuð breytilegt eftir árum hvar uppsjávarfiskar eins og síld veiðist. Helstu veiðisvæði norsk-íslensku vorgotssíldarinnar hafa verið austur af landi en áður fyrr gekk hún norður með landinu. Sumargotssíldin veiðist að langmestu leyti vestur af landinu. Tvö síðastliðin fiskveiðiár fengust um 90% af aflanum á litlu svæði í sunnanverðum Breiðafirði (í Grundafirði og í Kiðeyjarsundi). Humarmið Humarmiðin eru eingöngu suður af landinu. Þau ná austan frá Stokksnesi og vestur fyrir Reykjanes en undanfarin ár hafa bestu miðin verið við Vestmannaeyjar, í Meðallandsbug og skammt austan við Ingólfshöfða. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hver eru bestu fiskimið í Faxaflóa?
- Með hverju veiðir maður þorsk?
- Hvernig eru þorskur og ýsa flokkuð niður í ríki, fylkingu, flokk, ættbálk og ætt?
- Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 146. Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2008/2009. Aflahorfur fiskveiðiárið 2009/2010.