Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hefur hákarl einhvern tíma ráðist mann í kringum Ísland? Ef ekki, er þá til eitthvert dýr við Ísland sem mundi ráðast á mann ef það gæti það?
Hér er einnig svarað spurningunum:
Er vitað um einhver tilvik þar sem hákarl hefur ráðist á einhverja skepnu við Ísland?
Geta selir við Ísland verið hættulegir köfurum?
Höfundur fann engar heimildir um að hákarl hafi ráðist á mann við Ísland. Grænlandshákarlinn (Somniosus microcephalus), sem finnst meðal annars við Ísland, er þó mikill tækifærissinni í fæðuvali og því ekki útilokað að hann ráðist á fólk hér við land liggi leiðir þeirra saman.
Grænlandshákarl (Somniosus microcephalus).
Önnur dýr sem hugsanlega gætu ráðist á menn hér við land eru selir og háhyrningar. Líkt og með grænlandshákarlinn eru þó engin þekkt dæmi um árásir háhyrninga á menn við Ísland. Frá Bandaríkjunum eru hins vegar þekkt nokkur tilvik þar sem háhyrningar í sædýrasöfnum urðu mönnum að bana.
Það er í reynd undarlegt að háhyrningar ráðist ekki meira á menn en raun ber vitni þar sem þeir drepa mörg önnur spendýr svo sem seli, aðrar hvalategundir og otra auk fjölda annarra dýrategunda. Ástæðan fyrir þessu er ekki þekkt en menn hafa lengi velt vöngum yfir þessum takmarkaða áhuga háhyrninga á mannaveiðum. Sumir hafa haldið því fram að háhyrningar viti sínu viti og vilji halda frið við mannskepnuna, annað yrði harmleikur fyrir þá. Slík skýring er vissulega skemmtileg en algerlega ósönnuð.
Selir geta hins vegar reynst köfurum hér við land hættulegir. Að sögn sportkafara sem höfundur leitaði til þá eru það aðallega útselsbrimlar á fengitíma sem hafa ráðist á kafara að fyrra bragði en einnig eru dæmi um árásir annarra sela. Höfundi er til að mynda kunnugt um að í Hindisvík, þar sem selur hefur verið friðaður síðan á 19. öld, hafi landselsurta með kóp ráðist á kafara og bitið. Ekki er ljóst hvað hljóp í þessa urtu en eitthvað hefur henni fundist sér og kóp sínum ógnað. Þessi árás urtunnar olli engum stórum skaða en skaut kafaranum skelk í bringu. Það er einnig vel þekkt að kópar narta í fit kafara enda gera þeir slíkt hið sama í ærslafullum leik sín á milli.
Útselur (Halichoerus Grypus).
Í lokin er rétt að nefna að villt dýr eru óútreiknanleg enda eru lög í Bandaríkjunum sem bannað sundfólki að synda nærri sjávardýrum. Hins vegar ætti enginn að hafa alvarlegar áhyggjur af selum eða öðrum dýrum þegar kafað er hér við land þótt vitað sé um árekstra á milli manna og sela.
Höfundur þakkar Matthíasi Bjarnasyni kafara fyrir aðstoð við gerð þessa svars.
Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör sem fjalla um hákarla og háhyrninga, til dæmis:
Jón Már Halldórsson. „Er vitað um hákarlaárásir á menn við Ísland?“ Vísindavefurinn, 14. september 2005, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5264.
Jón Már Halldórsson. (2005, 14. september). Er vitað um hákarlaárásir á menn við Ísland? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5264
Jón Már Halldórsson. „Er vitað um hákarlaárásir á menn við Ísland?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2005. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5264>.