Er það satt að hvalir séu skipulagðir og ráðist einn og einn í einu á síldartorfur? Eru þessar skepnur gáfaðar?Þónokkrar tegundir hvala nýta sér þá miklu fæðu sem göngur uppsjávarfiska gefa af sér. Hér við land eru það háhyrningar (Orcinus orca), höfrungar (svo sem hnýðingar) og hnúfubakar (Megaptera novaeangliae) sem nýta sér síldina sér til viðurværis. Atferli hnúfubaka við veiðar á síld, loðnu og öðrum uppsjávarfiskum sem lifa í torfum, er vel þekkt enda hefur það verið mikið rannsakað. Kunn eru dæmi um að nokkrir hnúfubakar vinni náið saman við veiðarnar. Fyrst mynda þeir loftbólur umhverfis fiskitorfuna. Það hræðir fiskinn og hann þjappar sér saman. Svo mynda hvalirnir loftbólur undir torfunni þannig að fiskurinn leitar alveg upp að yfirborði sjávar, og þá gera hvalirnir atlögu að torfunni. Með opið ginið synda þeir í torfuna og moka fiskinum upp í sig.
Önnur veiðiaðferð á síld er þekkt meðal háhyrninga. Hún er algeng sjón við strendur Noregs á hverju ári, þegar síldartorfur ganga árlega inn á firðina, til dæmis Tyrsfjörð. Háhyrningarnir ráðast einn í einu á torfuna og slá í hana með sporðinum og rota þannig fjölda fiska sem þeir svo tína upp, einn af öðrum. Þessar veiðiaðferðir krefjast skipulags sem algengt er að sjá meðal rándýra, á láði og legi. Ef spurt er hvort þessar skepnur eru gáfaðar, verður að svara því játandi. Hvalir á borð við þær tegundir sem nefndar eru hér að ofan, búa yfir miklu viti. Mynd:
- Vefsetur The Green Community