Á haustin færa hreindýrin sig neðar í landinu og hafa verið gerðar rannsóknir á fæðuvali þeirra bæði á Fljótsdalsheiði og Jökuldalsheiði. Helsti munurinn fólst í mismunandi hlutfalli flétta í fæðu þeirra. Á Jökuldalsheiði voru fléttur 64% af fæðunni og stærsti hluti þeirra voru fjallagrös (Cetraria islandica) sem voru 61% af fæðunni. Fléttur voru hins vegar aðeins 21% af fæðu hreindýra á Fljótsdalsheiði og algengasta fléttutegundin sem dýrin átu var mundagrös (Cetrariella delisei) sem var 12% fæðunnar og stinnastör (Carex bigelowii) og grasvíðir (Salix herbacea) sem voru allt að 30% af fæðu þeirra. Hlutfall þessara tegunda var aðeins 8% af fæðu hreindýranna á Jökuldalsheiði. Á veturna halda hreindýrin sig eru oft á holtum, ásum og brekkum neðan við heiðalöndin, þar sem snjólétt er og sæmilegir bithagar. Þar nærast þau helst á rjúpnalaufum, og fjalldrapa, Á Fljótsdalsheiði þar sem hreindýr hafa gengið nærri fléttum hafa þau snúið sér að vallarsveifgrasi (Poa pratensis), stinnastör, túnvingul (Festuca richardsonii), sauðamerg (Loiseleuria procumbens), krækilyngi (Empetrum nigrum) og rjúpnalaufi en þessar tegundir voru um 80% af vetrarfæðu þeirra en fléttur aðeins 3%. Höfundur hefur engar upplýsingar um hvaða plöntur hreindýr forðast en hreindýr eru augljóslega miklir tækifærissinnar í fæðuvali sínu og sjálfsagt skýrir það hversu vel þau þrífast á mörkum hins byggilega heims, meðal annars á mörgum harðneskjulegustu stöðum jarðar, svo sem á Ellesmere-eyju, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig fara hreindýratalningar fram?
- Hvers vegna er þvag hreindýra stundum rautt?
- Hversu mörg hreindýr lifa á Íslandi og hversu mörg þeirra eru villt?
- Kristbjörn Egilsson, Skarphéðinn Þórisson. 1983. Áhrif fyrirhugaðra virkjana á Austurlandi á hreindýr og beitilönd þeirra. Náttúrufræðistofnun/Orkustofnun. OS-83074/VOD-08.
- Kristbjörn Egilsson. 1983. Fæða og beitilönd íslensku hreindýranna. Náttúrufræðistofnun/Orkustofnun. OS-83073/VOD-07.
- Kristbjörn Egilsson. 1993. Beitilönd og fæða hreindýra á hálendi Austurlands. Í: Villt íslensk spendýr, ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd. Reykjavík.
- Skarphéðinn G. Þórisson. 2004. Hreindýr. Í : Íslensk spendýr, ritstj. Páll Hersteinsson. Vaka Helgafell.
- Wikimedia.org. Sótt 6.5.2009.