Víða í görðum á Íslandi er að finna risahvannir sem sumar geta orðið 2-3 metrar á hæð og eru oft til mikillar prýði og stolt margra garðeigenda. Þarna er einkum um að ræða bjarnarkló en til eru fleiri tegundir risahvanna (af ættinni Heracleum). Risahvannir eru svo nefndar vegna þess að þær líkjast og eru skyldar ætihvönn en eru miklu stærri. Nokkrar tegundir risahvanna vaxa hér og er dálítill ruglingur á nafngiftum þannig að handbókum ber ekki saman en algengastar eru bjarnarkló, tröllahvönn og tromsöpálmi. Í því samhengi sem hér um ræðir eru allar tegundir risahvanna álíka eitraðar. Risahvannir er að finna í görðum víða um land. Risahvannir eru eitraðar á þann hátt að berist safi úr blöðum eða stönglum á húð, veldur það ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni (einkum efnið psoralen) sem sogast fljótt inn í húðina og valda því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum sem oft eru í rákum eða skellum þar sem plöntusafinn straukst eða draup á húðina en slíkt kallast ljósertiexem. Útbrotin koma oftast 5-18 klst. eftir sólbað og eru verst eftir 1½ til 2 sólarhringa. Húðin er viðkvæm í nokkrar vikur og eina ráðið er að verja viðkomandi húðsvæði fyrir ljósi en það getur verið erfitt til dæmis í andliti. Þegar brunasárin hafa gróið skilja þau oftast eftir brúna bletti sem geta verið mörg ár að hverfa. Slysin verða þegar fólk er að klippa eða grisja plönturnar eða við leik hjá börnum, til dæmis ef þau nota hola stöngla plöntunnar fyrir blásturspípur. Mörg tilvik af slæmum bruna eftir risahvannir eru þekkt hér á landi og hafa sjúklingarnir leitað á heilsugæslustöðvar eða til sérfræðinga í húðsjúkdómum. Hættulegast er ef fólk kemst í snertingu við plöntur sem eru eitraðar á þennan hátt og fer síðan í sólbað eða á sólbaðsstofu. Hér á landi eru þekkt nokkur tilvik af slæmum bruna hjá fólki sem vann við að snyrta og pakka selleríi (blaðselju) og fór síðan á sólbaðstofu. Fjöldinn allur af plöntum inniheldur efni sem gera húðina viðkvæma fyrir ljósi og geta valdið ljósertiexemi og fyrir utan risahvannir og sellerí má þar nefna hvannir, nípu, gulrætur (stönglar og blöð), ýmsar sóleyjar, steinselju, fíkjutré, dill, linditré og sumar tegundir sinnepsplantna. Það er því virkilega ástæða til að varast þær plöntur sem hér hafa verið nefndar og vafasamt er að risahvannir eigi rétt á sér á stöðum þar sem börn eru að leik og í almenningsgörðum. Ýmsar jurtir geta valdið útbrotum (snertiexemi) á annan hátt en hér hefur verið lýst og má þar nefna páskaliljur, túlípana (laukurinn), köllubróður (Dieffenbachia), gúmmítré, hvítlauk og margt fleira. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaða plöntur á Íslandi eru eitraðar? eftir Þóru Ellen Þórhallsdóttur
- Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmynd Guðbjarnason
- Náttúrustofa Vesturlands. Sótt 1.4.2009.