Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er stjórnlagaþing?

Árni Helgason

Stjórnlagaþing er þjóðkjörin samkoma sem hefur það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá fyrir viðkomandi ríki. Ýmis dæmi eru um það úr sögunni að boðað hafi verið til stjórnlagaþings og gerist það allajafna í kjölfar átaka eða umróts, til dæmis eftir að þjóð hefur lýst yfir sjálfstæði sínu, grundvallarbreytingar hafa orðið á stjórn landsins eða að loknum stríðsátökum. Ekki er fastmótað hvernig stjórnlagaþing eru skipuð eða hvernig þau starfa en venjulega sitja þar fulltrúar kjörnir af þjóðinni með einum eða öðrum hætti. Að baki hugmyndinni um stjórnlagaþing er sama hugmynd og með þjóðkjörin þing almennt, það er að valdið spretti frá þjóðinni sjálfri og að það séu fulltrúar hennar sem setji reglur og lög, þar með talið æðstu lög hverrar þjóðar, stjórnarskrána.

 

Hugmyndin um að valdið spretti frá þjóðinni og að stjórnvöldum sé markaður ákveðinn rammi með lögum og reglum koma meðal annars frá heimspekingunum John Locke og Jean-Jacques Rousseau. Á 18. og 19. öld urðu miklar breytingar á stjórnarfari í Evrópu og Bandaríkjunum, sem tengdust því að konungsveldi líða víða undir lok og þjóðkjörið þing tók við sem æðsta löggjafarvaldið. Bandaríkin og margar af þjóðum Evrópu settu sér stjórnarskrá og á upphaf þeirrar þróunar sér rætur í stjórnarskrá Bandaríkjanna árið 1791 og réttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar 1789.

Ýmis dæmi voru þá um að stjórnlagaþing væru skipuð og fengju það hlutverk að semja stjórnarskrár ríkja. Slíkt þing mótaði til dæmis stjórnarskrá Bandaríkjanna en á því þingi sátu 55 fulltrúar allra fylkja Bandaríkjanna sem höfðu lýst sig sjálfstæð árið 1776. Norska stjórnarskráin var samþykkt á nokkurs konar stjórnlagaþingi eða þjóðfundi þar í landi árið 1814 og danska stjórnarskráin (eða dönsku grundvallarlögin eins og þau eru kölluð) var samþykkt af stjórnlagaþingi árið 1849. Nýlegri dæmi eru frá Þýskalandi í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar en þar var sett á fót stjórnlagaþing sem samþykkti nýja stjórnarskrá fyrir Þýskaland árið 1949, í Suður-Afríku starfaði slíkt þing við að móta nýja stjórnarskrá eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok og í Austurríki var fyrir nokkrum árum sett á laggirnar stjórnlagaþing til að semja drög að nýrri stjórnarskrá en þær tillögur hafa ekki enn verið samþykktar.

Hafa ber þó í huga að vaninn er sá að þjóðþing hvers ríkis sé stjórnarskrárgjafinn og geri breytingar á stjórnarskránni. Í því valdi felst einnig að þjóðþingið hefur heimild til að semja nýja stjórnarskrá frá grunni. Fá dæmi eru um að þjóðir taki það upp hjá sér að skrifa stjórnarskrá sína alveg upp á nýtt enda meira en að segja það að skipta alfarið út stjórnskipunarreglum landsins. Í stjórnarskrám eru allajafna grundvallarreglur um þrískiptingu ríkisvaldsins, starfsemi lykilstofnana ríkisins, svo sem ráðuneyta, þjóðþings og dómstóla auk þess sem kveðið er á um mannréttindi í stjórnarskrám. Stjórnarskrám til fyllingar og nánari skýringar eru svo dómar og dómaframkvæmd sem hefur í mörgum tilfellum mótast á löngum tíma. Öllu þessu er ýtt til hliðar þegar samin er ný stjórnarskrá og því er engin tilviljun að fá dæmi séu um að jafnróttækar breytingar hafi verið gerðar á síðustu áratugum.



Þjóðfundurinn, málverk eftir Gunnlaug Blöndal.

Raunar er víðast sá háttur hafður á að allar breytingar á stjórnarskrám, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða smávægilegar breytingar, eru nokkuð þungar í vöfum, krefjast til dæmis aukins meirihluta eða gera ráð fyrir að þing sé rofið, kosningar fari fram og nýtt þing samþykki svo breytingarnar í óbreyttri mynd, eins og íslenska stjórnarskráin kveður á um. Að baki þessari hefð byggir einfaldlega sú hugsun að brýnt sé að friður og stöðugleiki ríki um stjórnarskrána sökum þeirra grundvallarreglna sem hún hefur að geyma.

Hér á landi hefur ekki verið starfrækt stjórnlagaþing á sama hátt og lýst var að ofan. Næst því komst þó sennilega þjóðfundur árið 1851 en þar reyndur Danir að freista þess að láta Íslendinga samþykkja nýja stjórnarskrá dönsku þjóðarinnar. Fulltrúi dönsku stjórnarinnar á fundinum, Trampe greifi, lagði fram frumvarp til laga þessa efnis sem hefði, ef Íslendingar hefðu á það fallist, gert það að verkum að Ísland hefði innlimast í Danmörku. Á fundinum sátu þjóðkjörnir fulltrúar frá Íslandi og lauk honum eins og frægt er með því að flestir fundarmenn stóðu upp í lok fundar og sögðu einum rómi „vér mótmælum allir“. Af því varð því ekki að stjórnarskráin væri samþykkt og það var ekki fyrr en 1874 að Íslendingar fengu loks stjórnarskrá, sem Danakonungur setti einhliða.

Hugmyndir um að setja á laggirnar íslenskt stjórnlagaþing hafa komið fram nokkrum sinnum. Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins, kynnti slíka hugmynd árið 1948 og svo Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, árið 1995. Hugmyndinni skaut aftur upp kollinum síðasta vetur og var frumvarp um að stofna slíkt þing rætt ítarlega á Alþingi en það voru einkum þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu áherslu á að til slíks þings yrði boðað. Skiptar skoðanir voru þó um þessa hugmynd; annars vegar var því haldið fram að í ljósi þeirra atburða sem orðið höfðu haustið 2008 yrði að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi ríkisins, sem hefði í grunninn haldist óbreytt frá 1874. Á móti var bent á að fall fjármálakerfisins hefði lítið haft með stjórnarskrána að gera, hún væri þvert á móti skjól okkar á erfiðum tímum og heildarendurskoðun hennar, með tilheyrandi óvissu og kostnaði væri ekki æskileg að þessu sinni. Niðurstaðan var sú að frumvarpið varð ekki að lögum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:

Höfundur

Árni Helgason

lögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ

Útgáfudagur

7.10.2009

Spyrjandi

Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir, f. 1993, Björn Atli Axelsson

Tilvísun

Árni Helgason. „Hvað er stjórnlagaþing?“ Vísindavefurinn, 7. október 2009, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52177.

Árni Helgason. (2009, 7. október). Hvað er stjórnlagaþing? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52177

Árni Helgason. „Hvað er stjórnlagaþing?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2009. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52177>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er stjórnlagaþing?
Stjórnlagaþing er þjóðkjörin samkoma sem hefur það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá fyrir viðkomandi ríki. Ýmis dæmi eru um það úr sögunni að boðað hafi verið til stjórnlagaþings og gerist það allajafna í kjölfar átaka eða umróts, til dæmis eftir að þjóð hefur lýst yfir sjálfstæði sínu, grundvallarbreytingar hafa orðið á stjórn landsins eða að loknum stríðsátökum. Ekki er fastmótað hvernig stjórnlagaþing eru skipuð eða hvernig þau starfa en venjulega sitja þar fulltrúar kjörnir af þjóðinni með einum eða öðrum hætti. Að baki hugmyndinni um stjórnlagaþing er sama hugmynd og með þjóðkjörin þing almennt, það er að valdið spretti frá þjóðinni sjálfri og að það séu fulltrúar hennar sem setji reglur og lög, þar með talið æðstu lög hverrar þjóðar, stjórnarskrána.

 

Hugmyndin um að valdið spretti frá þjóðinni og að stjórnvöldum sé markaður ákveðinn rammi með lögum og reglum koma meðal annars frá heimspekingunum John Locke og Jean-Jacques Rousseau. Á 18. og 19. öld urðu miklar breytingar á stjórnarfari í Evrópu og Bandaríkjunum, sem tengdust því að konungsveldi líða víða undir lok og þjóðkjörið þing tók við sem æðsta löggjafarvaldið. Bandaríkin og margar af þjóðum Evrópu settu sér stjórnarskrá og á upphaf þeirrar þróunar sér rætur í stjórnarskrá Bandaríkjanna árið 1791 og réttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar 1789.

Ýmis dæmi voru þá um að stjórnlagaþing væru skipuð og fengju það hlutverk að semja stjórnarskrár ríkja. Slíkt þing mótaði til dæmis stjórnarskrá Bandaríkjanna en á því þingi sátu 55 fulltrúar allra fylkja Bandaríkjanna sem höfðu lýst sig sjálfstæð árið 1776. Norska stjórnarskráin var samþykkt á nokkurs konar stjórnlagaþingi eða þjóðfundi þar í landi árið 1814 og danska stjórnarskráin (eða dönsku grundvallarlögin eins og þau eru kölluð) var samþykkt af stjórnlagaþingi árið 1849. Nýlegri dæmi eru frá Þýskalandi í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar en þar var sett á fót stjórnlagaþing sem samþykkti nýja stjórnarskrá fyrir Þýskaland árið 1949, í Suður-Afríku starfaði slíkt þing við að móta nýja stjórnarskrá eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok og í Austurríki var fyrir nokkrum árum sett á laggirnar stjórnlagaþing til að semja drög að nýrri stjórnarskrá en þær tillögur hafa ekki enn verið samþykktar.

Hafa ber þó í huga að vaninn er sá að þjóðþing hvers ríkis sé stjórnarskrárgjafinn og geri breytingar á stjórnarskránni. Í því valdi felst einnig að þjóðþingið hefur heimild til að semja nýja stjórnarskrá frá grunni. Fá dæmi eru um að þjóðir taki það upp hjá sér að skrifa stjórnarskrá sína alveg upp á nýtt enda meira en að segja það að skipta alfarið út stjórnskipunarreglum landsins. Í stjórnarskrám eru allajafna grundvallarreglur um þrískiptingu ríkisvaldsins, starfsemi lykilstofnana ríkisins, svo sem ráðuneyta, þjóðþings og dómstóla auk þess sem kveðið er á um mannréttindi í stjórnarskrám. Stjórnarskrám til fyllingar og nánari skýringar eru svo dómar og dómaframkvæmd sem hefur í mörgum tilfellum mótast á löngum tíma. Öllu þessu er ýtt til hliðar þegar samin er ný stjórnarskrá og því er engin tilviljun að fá dæmi séu um að jafnróttækar breytingar hafi verið gerðar á síðustu áratugum.



Þjóðfundurinn, málverk eftir Gunnlaug Blöndal.

Raunar er víðast sá háttur hafður á að allar breytingar á stjórnarskrám, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða smávægilegar breytingar, eru nokkuð þungar í vöfum, krefjast til dæmis aukins meirihluta eða gera ráð fyrir að þing sé rofið, kosningar fari fram og nýtt þing samþykki svo breytingarnar í óbreyttri mynd, eins og íslenska stjórnarskráin kveður á um. Að baki þessari hefð byggir einfaldlega sú hugsun að brýnt sé að friður og stöðugleiki ríki um stjórnarskrána sökum þeirra grundvallarreglna sem hún hefur að geyma.

Hér á landi hefur ekki verið starfrækt stjórnlagaþing á sama hátt og lýst var að ofan. Næst því komst þó sennilega þjóðfundur árið 1851 en þar reyndur Danir að freista þess að láta Íslendinga samþykkja nýja stjórnarskrá dönsku þjóðarinnar. Fulltrúi dönsku stjórnarinnar á fundinum, Trampe greifi, lagði fram frumvarp til laga þessa efnis sem hefði, ef Íslendingar hefðu á það fallist, gert það að verkum að Ísland hefði innlimast í Danmörku. Á fundinum sátu þjóðkjörnir fulltrúar frá Íslandi og lauk honum eins og frægt er með því að flestir fundarmenn stóðu upp í lok fundar og sögðu einum rómi „vér mótmælum allir“. Af því varð því ekki að stjórnarskráin væri samþykkt og það var ekki fyrr en 1874 að Íslendingar fengu loks stjórnarskrá, sem Danakonungur setti einhliða.

Hugmyndir um að setja á laggirnar íslenskt stjórnlagaþing hafa komið fram nokkrum sinnum. Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins, kynnti slíka hugmynd árið 1948 og svo Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, árið 1995. Hugmyndinni skaut aftur upp kollinum síðasta vetur og var frumvarp um að stofna slíkt þing rætt ítarlega á Alþingi en það voru einkum þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu áherslu á að til slíks þings yrði boðað. Skiptar skoðanir voru þó um þessa hugmynd; annars vegar var því haldið fram að í ljósi þeirra atburða sem orðið höfðu haustið 2008 yrði að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi ríkisins, sem hefði í grunninn haldist óbreytt frá 1874. Á móti var bent á að fall fjármálakerfisins hefði lítið haft með stjórnarskrána að gera, hún væri þvert á móti skjól okkar á erfiðum tímum og heildarendurskoðun hennar, með tilheyrandi óvissu og kostnaði væri ekki æskileg að þessu sinni. Niðurstaðan var sú að frumvarpið varð ekki að lögum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Mynd:...