Raunar er víðast sá háttur hafður á að allar breytingar á stjórnarskrám, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða smávægilegar breytingar, eru nokkuð þungar í vöfum, krefjast til dæmis aukins meirihluta eða gera ráð fyrir að þing sé rofið, kosningar fari fram og nýtt þing samþykki svo breytingarnar í óbreyttri mynd, eins og íslenska stjórnarskráin kveður á um. Að baki þessari hefð byggir einfaldlega sú hugsun að brýnt sé að friður og stöðugleiki ríki um stjórnarskrána sökum þeirra grundvallarreglna sem hún hefur að geyma. Hér á landi hefur ekki verið starfrækt stjórnlagaþing á sama hátt og lýst var að ofan. Næst því komst þó sennilega þjóðfundur árið 1851 en þar reyndur Danir að freista þess að láta Íslendinga samþykkja nýja stjórnarskrá dönsku þjóðarinnar. Fulltrúi dönsku stjórnarinnar á fundinum, Trampe greifi, lagði fram frumvarp til laga þessa efnis sem hefði, ef Íslendingar hefðu á það fallist, gert það að verkum að Ísland hefði innlimast í Danmörku. Á fundinum sátu þjóðkjörnir fulltrúar frá Íslandi og lauk honum eins og frægt er með því að flestir fundarmenn stóðu upp í lok fundar og sögðu einum rómi „vér mótmælum allir“. Af því varð því ekki að stjórnarskráin væri samþykkt og það var ekki fyrr en 1874 að Íslendingar fengu loks stjórnarskrá, sem Danakonungur setti einhliða. Hugmyndir um að setja á laggirnar íslenskt stjórnlagaþing hafa komið fram nokkrum sinnum. Páll Zóphóníasson, þingmaður Framsóknarflokksins, kynnti slíka hugmynd árið 1948 og svo Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, árið 1995. Hugmyndinni skaut aftur upp kollinum síðasta vetur og var frumvarp um að stofna slíkt þing rætt ítarlega á Alþingi en það voru einkum þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu áherslu á að til slíks þings yrði boðað. Skiptar skoðanir voru þó um þessa hugmynd; annars vegar var því haldið fram að í ljósi þeirra atburða sem orðið höfðu haustið 2008 yrði að gera grundvallarbreytingar á stjórnskipulagi ríkisins, sem hefði í grunninn haldist óbreytt frá 1874. Á móti var bent á að fall fjármálakerfisins hefði lítið haft með stjórnarskrána að gera, hún væri þvert á móti skjól okkar á erfiðum tímum og heildarendurskoðun hennar, með tilheyrandi óvissu og kostnaði væri ekki æskileg að þessu sinni. Niðurstaðan var sú að frumvarpið varð ekki að lögum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum? eftir Árna Helgason
- Hvað gerist ef Alþingi setur lög sem stangast á við stjórnarskrána? eftir Sigurð Guðmundsson
- Hvenær sagði Jón Sigurðsson hin frægu orð "ég mótmæli þá í nafni konungs og þjóðarinnar því ranglæti sem haft væri í frammi"? eftir Helgu Láru Guðmundsdóttur
- Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði? eftir Gunnar Karlsson
- Frumvarp forsætisráðherra til stjórnarskipunarlaga, lagt fram á Alþingi 4. mars 2009.
- Stjórnskipunarréttur. Gunnar G. Schram. Háskólaútgáfan. 1997. Bls. 56 og 448-452.