Nefnd var skipuð til að fjalla um frumvarpið og vildi meirihluti hennar að það yrði fellt, enda í litlu samræmi við óskir Íslendinga. Þess í stað lagði nefndin fram nýtt frumvarp sem byggði á hugmyndum Jóns Sigurðssonar sem hann hafði áður sett fram. Þar var gert ráð fyrir nær algjöru sjálfstæði en sameiginlegum konungi sem hefði löggjafarvald ásamt Alþingi. Ljóst var að meirihluti fundarmanna studdi frumvarp Jóns og samherja hans. Trampe greifi, fulltrúi konungs á fundinum, vildi hins vegar ekki taka frumvarpið til umræðu og sleit fundinum í nafni konungs. Jón var ekki sáttur við þessi málalok og sagði þá: „Og ég mótmæli í nafni konungs og þjóðarinnar þessari aðferð, og ég áskil þinginu rétt til, að klaga til konungs vors yfir lögleysu þeirri, sem hér er höfð í frammi.“ Þá stóðu flestir þingmenn á fætur og sögðu einum rómi: „Vér mótmælum allir“. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga? eftir Pál Björnsson
- Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga? eftir Gunnar Karlsson
- Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði? eftir Gunnar Karlsson
- Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson (ritstj.). Íslenskur söguatlas. Frá 18. öld til fullveldis. Reykjavík, Iðunn, 1992.
- Jónshús
- Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2005
- Mynd: Heimastjórn. Stjórnarráð Íslands 1904-2004. Sótt 24.6.2009.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2009.