Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar Íslendingar mynduðu sjálfstætt samfélag á miðöldum, það sem þeir kalla nú þjóðveldi, höfðu þeir ekki sérstakt tungumál. Sjálfir töldu þeir að tunga Norðurlandabúa (að frátöldum Finnum og Sömum) væri ein og kölluðu hana ýmist norrænu eða danska tungu. Á þessu svæði voru auðvitað talaðar margar ólíkar mállýskur, en í Noregi og á Íslandi var mállýskumunur óverulegur. Fræðimenn greinir iðulega á um það í hvoru landinu ákveðinn texti sé saminn. En á öldunum eftir að Íslendingar gengu inn í norræn konungsríki, fyrst hið norska og síðan með því í hið danska, greindist tunga þeirra smám saman frá tungumálum hinna þjóðanna, einkum vegna þess að mál Íslendinga breyttist minna en annarra. Á 16. öld tóku Íslendingar afleiðingum þessarar þróunar og fóru að kalla tungumál sitt íslensku.
Þegar þetta gerðist var fornmenntastefna öflug meðal menntamanna í Evrópu, og hún fólst í viðleitni til að endurvekja menningu fornaldarþjóða við Miðjarðarhaf, Grikkja og Rómverja. Meðal annars var lögð áhersla á að menn lærðu tungur þessara þjóða, grísku og latínu, eins og þær voru í fornöld af því að dýrmætur menningararfur væri varðveittur á þessum málum. Nokkrum Íslendingum hugkvæmdist að færa þessa kenningu yfir á íslenska tungu og þann menningararf sem væri varðveittur í íslenskum fornritum. Þeir tóku að líta á íslensku sem sígilt mál sem væri þjóðardýrgripur Íslendinga, og því bæri að halda málinu sem hreinustu. Þekktasti talsmaður þessa sjónarmiðs er Arngrímur Jónsson lærði, eins og kemur glöggt fram í bók hans Crymogæa, sem kom fyrst út árið 1609.
Upphaflega fylgdi þessu háa mati á íslenskunni engin hugmynd um sjálfstæði Íslendinga. Menn sáu ekkert athugavert við að vera í Danaveldi og halda áfram að vera íslensk þjóð með íslenskt mál og menningu. Mörk þjóða og ríkja þurftu ekkert endilega að falla saman. Danir voru sáttir á þetta líka; þeir Danir sem höfðu áhuga á fornri menningu voru stoltir af því að hafa innan marka konungsríkisins þjóðina sem hafði varðveitt fornt mál og menningu Norðurlanda. Í þeirra augum hefði verið skemmdarverk að gera Íslendinga að Dönum.
Svo reið pólitísk þjóðernishyggja yfir Evrópu á áratugunum í kringum 1800 og boðskapur hennar var sá að mörk þjóða og ríkja ættu að falla saman. Þjóðir sem bjuggu í ólíkum ríkjum leituðust við að sameinast í einu ríki (Þjóðverjar, Ítalir); þjóðir sem bjuggu innan marka annarra ríkja vildu slíta sig lausar og mynda sitt eigið ríki (Grikkir, Ungverjar, Írar, Tékkar, Finnar, Íslendingar).
En hvað gerði þá hóp fólks að sérstakri þjóð? Margt, og ekki það sama hjá öllum þjóðum: sameiginleg upprunasögn, sérstök trúarbrögð og fleira. En í Evrópu var skýrasti vitnisburðurinn um sérstakt þjóðerni að tala sama tungumál og ólíkt öðru fólki. Hjá Íslendingum bættist það við að tungumál þeirra var gamalt ritmál og menningarmál. Snemma á 19. öld gaf danski málvísindamaðurinn Rasmus Kristian Rask Íslendingum vitnisburð um að tungumál þeirra væri enn hið sama og hin forna norræna. Það hefur verið Íslendingum ómetanlegur hvati þess að stefna á að mynda sérstakt íslenskt þjóðríki.
Eitt út af fyrir sig er sérstakt tungumál ekki nægilegt til að þjóðir taki stefnu á sjálfstæði, ekki einu sinni þótt þær séu stoltar af ritmenningu sem þær eiga á tungu sinni. Það sýnir dæmi Walesbúa sem tóku aldrei þessa stefnu. En meðal Íslendinga er ekki vafi á því að sjálfstæðisbaráttan var að miklu leyti reist á tungumálinu, jafnvel fremur en öllu öðru.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4709.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2005, 10. janúar). Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4709
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4709>.