En var grameðlan í raun og veru þessi mikli afræningi eða var hún aðeins hrææta? Fjölmargir steingervingafræðingar, hafa fært fyrir því ýmis rök að grameðlan hafi ekki verið sérstaklega góður afræningi. Miðað við áætlaða stærð augna hennar hafði hún sennilega slaka sjón. Framlappir grameðlunnar voru afar rýrar og hún gat ekki hlaupið hratt vegna líkamsstærðar. Hins vegar bendir allt til þess að þefskynið hafi verið mjög gott, auk þess sem stórvaxnar lappirnar hafa gert henni kleift að ferðast langar leiðir í leit af hræjum. Aðrir fræðimenn, til að mynda vísindamaðurinn Kenneth Carpenter, draga í efa að grameðlan hafi eingöngu verið hrææta. Ýtarlegar rannsóknir á nýfundnum steingervingi af plöntuætunni Hadrosaurus eða hlasseðlu, hafa til að mynda leitt í ljós tannaför á rófu hennar. Ummerkin benda til þess að grameðla hafi átt í hlut. Ekki fundust önnur ummerki á hlasseðlunni þannig að grameðlunni hefur ekki heppnast að drepa hana. En þetta þykir góð vísbending um að grameðlur hafi stundað veiðar á stórum eðlum. Kenneth Carpenter telur einnig að þótt augu grameðlunnar hafi verið smá, þýði það ekki endilega að sjónin hafi verið slæm. Fjölmargir fuglar hafa góða sjón þrátt fyrir smá augu. Einnig er ekki víst að rýrar framlappir hafi verið hindrun við veiðar. Hákarlar og slöngur hafa enga framlimi en eru þó dugleg veiðidýr. Þótt grameðlan hafi ekki farið hratt yfir, þá voru aðrar risaeðlur enn hæggengari og þess vegna ekki nauðsynlegt fyrir grameðluna að hlaupa hratt.
En hvaða eðlur er þá líklegt að grameðlan hafi veitt? Vísindamenn hafa fundið 66 milljón ára gamlan steingerðan saur (coprolita) sem þeir telja að sé úr grameðlu. Í þessum forna saur sem er um 44 cm langur og 13 cm breiður, er aragrúi beinflísa, meðal annars flísar úr höfuðskildi nashyrningseðlu (Triceratops). Fornsaurinn gefur afar mikilvægar upplýsingar um fæðuval þessa löngu útdauða dýrs. Fullvaxin nashyrningseðla var allt að níu metra löng og um 6-12 tonn á þyng. Samkvæmt bestu þekkingu vísindamanna var hún kjörfæða grameðlunnar. Vígaleg horn nashyrningseðlunnar og höfuðskjöldurinn gegndu því hlutverki að verja hana gegn biti á hnakkann. Sennilega var höfuðskjöldurinn og hornin aðlögun gegn afráni grameðlu og annarra risaeðlna sem veiddu hana. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða risaeðlur fyrir utan grameðlur, ef einhverjar, átu nashyrningseðlur? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað voru stærstu grameðlutennurnar stórar? eftir Jón Má Halldórsson
- Af hverju urðu risaeðlurnar svona stórar? eftir Jón Má Halldórsson
- Wikimedia Commons. Sótt 3.4.2009.
- Natural History Highlight. Sótt 3.4.2009.