Erfðapróf hafa sýnt að faðir þessa blendings var brúnbjörn en móðir hans hvítabjörn. Þetta var stórfrétt meðal dýrafræðinga þar sem æxlunaratferli brúnbjarna og hvítabjarna er ekki alveg það sama auk þess sem æxlunartíminn er frábrugðinn. Útbreiðslusvæði tegundanna skarast lítt en þó flækjast hvítabirnir mjög sunnarlega inn á meginlandið og brúnbirnir fara stundum nokkuð norðarlega. Meðal annars eru heimildir fyrir því að brúnbirnir hafi flækst allt norður til Melville-eyju sem er staðsett á 73°30’ norðlægrar breiddar og liggur fyrir vestan Ellesmere-eyju. Þetta er samt sem áður ekki í fyrsta skipti sem slíkan blending rekur á fjörur vísindamanna. Árið 1864 lýsti líffræðingurinn Clinton Hart Merriam loðnu hvítleitu bjarndýri með brúnum skellum við Rendezvous-vatn í norðvesturhluta óbyggða Kanada. Öld síðar minnist Clara Helgason bjarndýrs sem veiðimenn veiddu á Kodíak-eyju. Dýrið var stórt og hvítt en hafði fjölmörg einkenni brúnbjarnar. Rannsóknir á skyldleika brúnbjarna og hvítabjarna benda til að sumar deilitegundir brúnbjarna séu skyldari hvítabjörnum en öðrum deilitegundum brúnbjarna. Slíkt þarf ekki að koma á óvart þar sem afar sterk rök eru fyrir því að hvítabirnir séu komnir af brúnbjörnum auk þess sem söguleg heimsútbreiðsla brúnbjarna er um alla Norður-Ameríku, Evrasíu, suður til botns Miðjarðarhafs og austur úr, utan þéttra regnskóga. Þrátt fyrir að blendingur hvítabjarnar og brúnbjarnar hafi fundist í náttúrinni er varla hægt að segja að ný tegund sé komin fram. Hvort svona blendingar eru fyrsta skrefin í myndun nýrrar bjarndýrategundar skal ósagt látið þar sem lítið er vitað um hæfni þeirra í samanburði við hvítabirni eða brúnbirni eða hvort þeir geti eignast afkvæmi og þannig viðhaldið sér.
- Geturðu sagt mér allt um birni og sýnt mér myndir?
- Ísbirnir eru af bjarnarætt en hver er ættkvísl þeirra?
- Eru eða hafa einhvern tímann verið til svartir ísbirnir?
- Hvað eru deilitegundir?
- Doupe, J.P., England, J.H., Furze, M. og Paetkau, D. 2007. Most northerly observation of a grizzly bear (Ursus arctos) in Canada: photographic and DNA evidence from Melville Island, Northwest Territories. Arctic 60(3): 271–276.
- Kurten, B. 1964. The evolution of the polar bear, Ursus maritimus (Phipps). Acta Zoologica Fennica 108:1-26.
- Marris, E. 2007. Linnaeus at 300: The species and the specious. Nature, 446: 250-253.
- Roach, J. Grizzly-polar bear hybrid found - but what does it mean? 2006, National Geographic News, 16. maí 2006.
- Solarnavigator.net
Hversu langan tíma tæki það fyrir nýjustu bjarnartegundina (þ.e. blendingur af ísbirni og forföður hans frá Ameríku) að koma alfarið í staðinn fyrir ísbirni og ameríska forföður hans?