Hvítur litur ísbjarna (Ursus maritimus) þjónar hlutverki felubúnings.
Mest áberandi munurinn á tegundunum tveimur er hvítur litur ísbjarnarins. Auk þess eru ísbirnir straumlínulagaðri og því betur fallnir til sunds, og tennur þeirra eru meira í ætt við tennur hreinræktaðra kjötæta ólíkt tanngerð alæta sem brúnbirnir teljast til. Brúnbirnir borða til dæmis mikið af berjum og öðru úr jurtaríkinu. Af ofangreindu sést að ísbjörninn er tiltölulega ung dýrategund og til marks um það er munur á erfðaefni hans og brúnbjarnarins lítill. Þessar tegundir geta átt afkvæmi saman og það sem merkilegra er, mörg afkvæmanna eru frjó. Þetta hefur vitanlega aðeins gerst í dýragörðum. Samkvæmt þessari lífssögu tegundarinnar, þar sem kraftmikið náttúrulegt val hefur gert ísbjörninn að því sem hann er í dag, er nánast útilokað að nokkur ísbjörn hafi nokkurn tímann verið svartur á lit. Hvítur feldur þeirra þjónar mikilvægu hlutverki sem felubúningur á ísbreiðunum. Ekki er hægt að útiloka að stökkbreyttir, svartir einstaklingar hafi komið fram. Slíkar stökkbreytingar eru hinsvegar augljóslega ekki vænlegar til árangurs fyrir dýrategund í snjóhvítu umhverfi og því myndu þær nær örugglega ekki erfast til næstu kynslóðar.
Meira má lesa um ísbirni og brúnbirni á Vísindavefnum í svari eftir sama höfund við spurningunni: Ísbirnir eru af bjarnarætt en hver er ættkvísl þeirra?
Mynd: Wenfoto