Styrkur norðurljósanna sveiflast óreglubundið dag frá degi en líka er um að ræða sveiflur sem ná yfir nokkur ár. Fjöldi sólbletta (sem meðal annars valda norðurljósum) á yfirborði sólar fylgir 11 ára sveiflu. Þegar margir sólblettir eru á yfirborði sólar er norðurljósakraginn stór og öfugt. Árið 2001 var sólblettahámark sem lýsti reglulega upp himininn norðarlega og sunnarlega. Lágmark var kringum 2006 og má búast við næsta hámarki kringum 2012. Við erum því nær því að vera stödd á skeiði lágmarksvirkni nú um stundir en hámarksvirkni og skýrir það hversu lítið sést af norðurljósum. Þrátt fyrir þessa sólblettasveiflu er alls ekki útilokað að sjá norðurljós hvenær sem er. Virkni sólarinnar er mjög óútreiknanleg. Ýmis fyrirbæri, svo sem sólgos og kórónuskvettur, geta orsakað tignarleg norðurljós. Til að hjálpa norðurljósaunnendum býður vefsíðan www.spaceweather.com (og eflaust fleiri) upp á viðvörunarþjónustuna: "Fáðu sms kvöldið sem búast má við norðurljósum". Þrátt fyrir að norðurljósin séu í lágmarki um þessar mundir, má samt búast við glæsilegri sýningu öðru hverju. Með hverjum deginum sem líður, siglum við nær nýju skeiði sólvirkni sem nær hámarki kringum 2012. Á Vísindavefnum eru fleiri svör sem fjalla um norður- og suðurljós, til dæmis:
- Af hverju eru norðurljós í mismunandi litum? eftir Þorsteinn Vilhjálmsson og Ögmundur Jónsson
- Hvers vegna eru ljósin á norður- og suðurhveli talin vera samhverf? eftir Aðalbjörn Þórólfsson
- Af hverju hefur verið óvenju mikið um norðurljós um þessar mundir? eftir Einar Örn Þorvaldsson
- Hvar er best að sjá norðurljós nálægt höfuðborgarsvæðinu og hvernig er hægt að vita hvenær þau eru á lofti? eftir Sævar Helga Bragason
- Er til íslensk hjátrú um norðurljós? eftir Símon Jón Jóhannsson
Þetta svar er aðeins stytt útgáfa af pistli á Stjörnufræðivefnum og birt með góðfúslegu leyfi.