Eins og fram kemur í svörum við spurningunum 'Af hverju stafa norður- og suðurljósin?' og 'Hvers vegna virðist stefna norðurljósa ávallt vera svipuð?' þá myndast norður- og suðurljósin við það að hlaðnar eindir, sem hreyfast hratt eftir segulsviðslínum jarðarinnar, rekast á sameindir og frumeindir í lofthjúpnum. Það er því eðli segulsviðs jarðarinnar sem ræður staðsetningu norður- og suðurljósanna. Hlöðnu eindirnar eru einungis nokkrar sekúndur að ferðast milli Norður-og Suðurpólsins, og því getur sami hópur hlaðinna einda valdið ljósagangi á norður- og suðurhveli nær samstundis. Rannsóknir á segulsviði jarðarinnar hafa sýnt að í mjög góðri nálgun er segulsviðið samhverft milli norður- og suðurhvelsins. Vegna eiginleika segulsviðsins og hraða hlöðnu eindanna er búist við að norður- og suðurljósin séu samhverf.
Mynd: NASA - Goddard Space Flight Center