Í riti Gunnars Jónssonar, Íslenskir fiskar er norrænu gulldeplu lýst svona:
Langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er rétt ofan við hausinn, sem er stór og þunnvaxinn. Kjafturinn er lítill og skástæður, aftari endi nær ekki á móts við fremri rönd augna. Tennur eru í efra skolti. Augu eru stór. Bakuggi er stuttur, en nokkuð hár og liggur aftan við miðju. Aftan hans er alllangur en lágur veiðiuggi. Raufaruggi er lágur en nokkuð langur og byrjar rétt aftan við rætur bakugga. Sporðblaðka er stór og sýld. Eyruggar eru miðlungsstórir og rætur þeirra eru við tálknalokið. Kviðuggar eru miðsvæðis. Hreistur er stórt og þunnt og fellur auðveldlega af. Rákin er ógreinileg.Norræna gulldepla verður um 7 cm á lengd og er því mun minni en loðna sem er yfirleitt rúmir 15-18 cm á lengd. Hún er græn eða dökkblá á baki en silfurhvít á hliðum og kvið. Ljósfærin sem norræna gulldeplan hefur á hliðum eru bláhvít með svartri umgjörð. Helstu heimkynni gulldeplu eru á vestanverðu Miðjarðarhafi og víða á norðanverðu Atlantshafi. Ennfremur finnst hún í Mexíkó-flóa, Karíbahafi og í Norðursjó, Skagerak og Kattegat. Á erlendum tungum er norræna gulldeplan kölluð lakssild (færeyska), laksesild (danska og norka) og pearlside (enska). Hún hefur af ýmsum hér á landi verið kölluð laxsíld en er af ætt silfurfiska. Hins vegar er til ætt sem nefnist laxsíldarætt. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum: Heimild og mynd:
- Íslenskir fiskar. Gunnar Jónsson. 2. útgáfa. Fjölvi. Reykjavík. 1992.
- Náttúrustofa Norðausturlands