Í sumum tilvikum klekjast eggin út innan líkama móðurinnar. Þar sem hákarlar hafa ekki fylgju eins og spendýr þá nærist ungviðið á vökva sem er hvítleitur á lit og minnir mjög á mjólk. Sjávarlíffræðingar nefna þetta legmjólk (e. uterine milk) og það eru frumur sem seyta vökvanum til unganna. Meðgangan er breytileg milli tegunda og hjá sumum getur hún tekið marga mánuði áður en kvikir ungar koma í heiminn (e. viviparity). Þetta á við um flestar tegundir núlifandi hákarla til dæmis hvalháf (Rhincodon typus), hámeri (Lamna nasus), bláháf (Prionace glauca), sítrónháf (Negaprion brevirostris) og nautháf (Carcharhinus leucas). Í öðrum tilvikum fara eggin óklakin út úr líkama kvendýrsins (e. oviparity) og er þau skilin eftir óvarin en móðirin syndir sína leið. Nær óþekkt er að hákarlar gæti eggja eða afkvæma sinna. Það má því ætla að afrán á eggjum eða svokölluðum pétursskipum sé mikið. Dæmi um tegundir sem fara þessa leið er sebraháfur (Stegostoma fasciatum), kattháfar (Scyliorhinidae) og belgháfur (Cephaloscyllium ventriosum). Þriðja leiðin nefnist ovoviviparous á fræðimáli. Þá klekst ungviðið í kvið móðurinnar en þar sem engin fylgja er til að miðla næringu þá lifa ungarnir á ófrjóvguðum eggjum og systkinum sínum. Skiljanlega eru afföllin afar mikil meðal unganna við slíkt sjálfsafrán. Þær tegundir sem fara þessa leið eru til dæmis hvíthákarlinn (Carcharodon carcharias), tígrishákarlinn (Galeocerdo cuvier) og grænlandsháfur (Somniosus microcephalus). Nýklakið ungviði hákarla er vel þroskað. Ungarnir hafa nánast fullþroskuð skynfæri, þeir eru fulltenntir og sundhæfnin ákaflega góð. Það veitir sjálfsagt ekki af þar sem þeir njóta ekki verndar móður sinnar eftir klak heldur þurfa að takast á við lífsbaráttuna og afla sér fæðu upp á eigin spýtur. Með því að smella hér má skoða myndbrot á vef National Geography þar sem kvikmyndatökumenn eru að reyna að mynda æxlun hákarla (það þarf að bíða í smá stund áður en rétta myndskeiðið fer af stað). Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör sem fjalla um hákarla. Þau má finna með því að smella á efnisorð sem fylgja þessu svari eða með því að nota leitarvélina. Mynd: Peter Chen. Sótt 23. 1. 2009.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvort eignast hákarlar lifandi unga eða egg?