Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig var tískan á millistríðsárunum? er fjallað um tískuna á 3. og 4. áratug 20. aldar og er það ágætis inngangur að þessu svari.
Seinni heimsstyrjöldin braust út í byrjun september árið 1939. Máltækið segir að neyðin kenni naktri konu að spinna. Óhætt er að yfirfæra það á árin um og eftir seinni heimsstyrjöldina; þegar neyðin er mest og vöruskortur mikill tekur hugmyndaflugið yfirhöndina. Vöruskortur leiddi meðal annars til skorts á ýmsum textílafurðum. Silki hvarf af markaðnum. Það sama átti við um skinn, perlur og bönd, tjull og fleira. Fylgihlutir og munstur minnkuðu og litir urðu gráir og dökkir, litir eins og brúnt, grátt, svart, dökkblátt, khakidrappað, mosagrænt og gult.
Vikublöð, sérstaklega ætluð konum, gerðu að aðalviðfangsefni sínu ýmis húsráð í sparnaðaraðferðum svo sem að sauma upp úr gömlu og í hvað mætti nota efnisafganga og búta. Að endurnýta var galdurinn; gamlir skór voru málaðir, skór sólaðir með korki, tré eða bíldekkjum, stálkantar voru settir á tá og hæla, skóáburður var notaður sem fótleggjalitur, vasaklútar og gömul sængurver nýtt í undirfatnað og gömul gluggatjöld eða áklæði notuð í fatnað. Einnig var algengt að herrafatnaði væri breytt í dömufatnað. Meðal annars breyttust frakkar í hálfsíða kvenjakka, pils eða barnakápur, jakkar urðu að dragtarjökkum, fóðruðum með dagblöðum, og svo framvegis.
Hermannayfirbragðið (miklar axlafyllingar, axlaspælar og belti) og sparnaðurinn komu fram í drögtum kvenna sem nú mátti einnig nota við ýmis tækifæri. Vöruskortur krafðist þess að öllu væri stillt í hóf og notagildið haft í fyrirrúmi. Pilsin styttust því og sniðin voru einföld, bein eða aðskorin með litlum krögum og fáum vasalokum. Kjólar og pils námu við hnéskel og skyrtur og blússur voru með frekar barnalegu sniði, svo sem litlum púffermum. Útsaumur, pels- og leðurkantar voru bannaðir. Vöfflusaumur og vasabryddingar urðu vinsælar heimatilbúnar skreytingar, að minnsta kosti hjá þeim sem voru flinkir í höndum.
Hjá konum var hárið oftast niður á axlir, lokkað eða krullað og greitt aftur. Stundum var það fléttað og fest upp á höfuðið og einnig mátti hekla net utan um hárið í hnakkanum; hugmyndaflugið var allsráðandi. Litlir hattar, eins og týrólahattur, voru vinsælir með hnakkabandi eða bundnir undir höku, einnig túrbanir og ekki má gleyma vinsælu alpahúfunni sem mögulegt var að skreyta með ýmsu móti. Varalitinn mátti ekki skorta. Hann var hluti af því að halda í stemninguna. Ekki var mikið um skartgripi, en nælur voru vinsælar í hattinn, hárið, kragann eða við hálsmálið. Formið á nælunum var frekar barnalegt, eins og könglar, berjaklasi, hundar, trúðar og svo framvegis.
Karlmenn klæddust gjarnan gömlum einkennisbúningum. Í flestum tilvikum (þó ekki öllum) neyddust þeir samt einfaldlega til þess. Hattar urðu aftur nauðsynlegir. Skortur á hráefni gerði það að verkum að í jakkafötin var notast við mismunandi efni í buxur og jakka. Notagildið og gæðin urðu mikilvægara en útlitið. Nælonskyrturnar (gerviefni) voru nýjung og tilbreyting frá gömlu bómullarskyrtunum. Auðvelt var að þvo þær, þær þornuðu fljótt og nánast ekkert þurfti að strauja þær.
Sumir ungir og tískumeðvitaðir menn klæddust svokölluðum zoot-jakkafötum. Búningurinn samanstóð af yfirdrifnum og axlabreiðum, lærasíðum jakka sem þrengdist niður (V-lína). Ekki var liturinn heldur látlaus, og mikið var notast við köflótt eða gangsterröndótt munstur. Þessu tilheyrðu svo ökklasíðar buxur, hvítir sokkar, brúnar, támjóar mokkasíur, barðabreiður hattur og sólgleraugu með svartri umgjörð. Segja má að þessi tíska sem kom frá swing-tónlistinni, nánar til tekið frá spænska hverfinu í Harlem í New York, hafi verið ein af fyrstu „götutískunum“.
Hátískan stóð í stað, mörg tískuhús í Evrópu þurftu að loka og hönnuðir fluttu sig úr stað. Þeir sem urðu eftir störfuðu aðeins fyrir þá sem höfðu pólitíska stöðu í samfélaginu. Engar nýjar hugmyndir voru í gangi, og samkvæmiskjólarnir voru það eina sem einhver kostnaður var lagður í. Margir hátískuhönnuðir á þessum tíma voru einnig farnir að hanna fatnað til fjöldaframleiðslu sem jókst verulega á þessum árum, og voru Bandaríkin þar í forystuhlutverki. Aukna fjöldaframleiðslu má meðal annars rekja til gerviefnanna sem þegar voru komin á markað, efna eins og reions og nælons.
Hlutverk Bandaríkjanna á þessum árum var að sjá um dýrðarljómann á kvikmyndatjaldinu, því það sem ekki var hægt að fá var að minnsta kosti hægt að láta sig dreyma um. Hermenn höfðu myndir af kvenkynskvikmyndastjörnum í fórum sínum sem uppörvun í hinum hrjáða heimi stríðsins. Skemmtanalífið var fjörugt á stríðsárunum. Dansað var swing, boogie woogie, rúmba og samba.
Mesta fatabylting síðari hluta fimmta áratugarins varð þegar Christian Dior (1905-1957) kynnti New Look-fatalínuna sína árið 1947. Hún sló rækilega í gegn, nánast á einni nóttu. Samkvæmt forskrift Diors átti útlitið að vera fullkomið frá toppi til táar. Allt átti að vera í stíl: hanskar, hattar, skór og handtöskur. Aðskorinn jakki úr hvítu shantung (silki) og svart, ökklasítt og plíserað ullarpils var og er táknrænt fyrir þennan stíl. Dior vildi breiðari mjaðmir og lögð var áhersla á mittið, sem og stoppaða (fyllta), spísslaga brjóstahaldara. Mjóslegið mittið var því mótað með lífstykki, en ungu stúlkurnar notuðu breitt teygjubelti í staðinn. Skórnir voru támjóir með háum hælum, og nælon var ríkjandi hráefni í sokkabuxum. Nælonsokkar komu fyrst á markað árið 1939 og hrundu af stað mikilli tískubylgju, enda voru þeir þynnri og sterkari en silkisokkarnir sem áður þekktust.
New Look-línan kom einnig fram í hversdagsfatnaði. Dragtir voru vinsælar; pilsið þröngt og jakkinn aðskorinn. Stríðið hafði tekið sinn toll með eymd, volæði og grámyglu og því var þessi kvenlega og ævintýralega tískulína kærkomin tilbreyting. Þetta nýja útlit hentaði vel gömlu, kvenlegu gildunum, þar sem klæðnaður konunnar átti að sýna ríkidæmi eiginmannsins eins og tíðkaðist fyrr á öldum. Eiginkona sem ekki þurfti að vera útivinnandi, heldur gat notið kvenleikans og baðað sig í lúxuslífinu og glæsileikanum var hámark ríkidæmis hins metnaðarfulla karlmanns. Draumurinn um vald, virðingu og peninga varð aftur sýnilegur í fatatísku kvenna eftir stríð.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ásdís Jóelsdóttir. „Hvernig var tískan á stríðsárunum?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5095.
Ásdís Jóelsdóttir. (2005, 28. júní). Hvernig var tískan á stríðsárunum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5095
Ásdís Jóelsdóttir. „Hvernig var tískan á stríðsárunum?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5095>.