Hér má geta þess að íslenskir jöklar eru þíðjöklar eins og það er kallað, en það þýðir að hitinn á þeim á sumrin er fyrir ofan frostmark þannig að þar verður þá bráðnun og vatnið rennur niður í jökulinn. Sumir aðrir jöklar, til dæmis Grænlandsjökull, eru hins vegar hjarnjöklar; þar er frost allt árið og aðeins óverulegt leysingarvatn fer niður í jökulinn. En það er sem sagt hitastigið á jöklinum sem stýrir því hversu ört hann bráðnar. Líklega hafa íslenskir jöklar smám saman stækkað allt frá landnámi og fram undir lok 19. aldar þar sem veðurfar fór kólnandi. Hins vegar hafa þeir verið að bráðna síðustu öldina og rúmlega það, þar sem veðurfar á tuttugustu öldinni var mun hlýrra en næstu þrjár aldir þar á undan. Víða við jökuljaðarinn, ekki síst á skriðjöklum, má sjá greinileg merki um að jökullinn hefur áður náð miklu lengra en hann gerir núna. Bráðnun jökla hefur enn verið að aukast á síðustu árum og er það yfirleitt rakið til hlýnunar af völdum gróðurhúsaáhrifa. Síðustu 12 árin er líklega hlýjasta 12 ára tímabil í Íslandssögunni með tilheyrandi áhrifum á jökla landsins. Talið er að flatarmál þeirra minnki nú um 0,3% á ári hverju og rúmmálið um allt að 0,5%. Með sama áframhaldi endast þeir vart meira en tvær aldir. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hopar Drangajökull ekkert eða mun minna en aðrir jöklar á landinu? eftir Odd Sigurðsson
- Hvernig myndast jöklar? eftir Ólaf Ingólfsson
- Hvaða ályktanir um loftslagsbreytingar í tímans rás má draga af rannsóknum á jöklabreytingum á Íslandi? eftir Ólaf Ingólfsson
- Hver verður líkleg staða jökla hérlendis eftir 50 ár miðað við óbreytta þróun? eftir Helga Björnsson
- Eru jöklar að hitna með tímanum? Hvers vegna? eftir ÞV
- Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni? eftir Freystein Sigmundsson og Helga Björnsson
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.