Þrír aðalskriðjöklar ganga út úr Drangajökli; í Kaldalón í Djúpi, Leirufjörð í Jökulfjörðum og Reykjarfjörð á Hornströndum. Staða þessara jökulsporða hefur verið mæld nær árlega síðan 1931, í upphafi að frumkvæði Jóns Eyþórssonar veðurfræðings en síðan á vegum Jöklarannsóknafélags Íslands. Úr þessum mælingum má lesa merkilega sögu. Allir þessir skriðjöklar eru svokallaðir framhlaupsjöklar. Slíkir jöklar hlaupa fram á nokkurra áratuga fresti án tillits til veðurfarsbreytinga. Ástæða þessa er ekki ljós enn og verður ekki rædd frekar hér. Kaldalónsjökull hljóp fram síðast á árunum 1995-2000 en áður 1936-1940. Leirufjarðarjökull fór samskonar ferð 1939-1942 og 1995-2001 og Reykjarfjarðarjökull 1934-1939 og 2002-2006. Sagnir eru til um mikil framhlaup jökulsins fyrr á öldum og má þar nefna að væn slægja í Kaldalóni, Tólfkarlaengi, fór undir jökul á skömmum tíma á 18. öld.
Af ofangreindum ástæðum hafa helstu skriðjöklar Drangajökuls styst mun minna á undanförnum 12 árum en aðrir jöklar á landinu. Þar með er ekki öll sagan sögð. Síðan 2005 hefur afkoma jökulsins verið mæld í samstarfi Orkubús Vestfjarða og Vatnamælinga Orkustofnunar. Af þeim mælingum er ljóst að á þessum tíma rýrnaði Drangajökull ekki í sama mæli og aðrir jöklar landsins. Virðist það vera vegna mikillar úrkomu, einkum vetrarúrkomu, þar um slóðir. Sömuleiðis má nefna að árið 2001 juku Drangajökull og aðrir jöklar á norðan- og austanverðu landinu við sig þótt stóru jöklarnir allir rýrnuðu það ár.
Talsverðu munar á loftslagi á norðanverðum Vestfjörðum og öðrum stöðum á landinu þar sem jöklar eru. Fyrir bragðið er Drangajökull um sumt ólíkur hinum stóru jöklunum. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig myndast jöklar? eftir Ólaf Ingólfsson
- Hvað gerist þegar jöklar hopa? eftir Sigurð Steinþórsson
- Eru jöklar að hitna með tímanum? Hvers vegna? eftir ÞV