Áratugina fyrir fæðingu Ying Zheng höfðu gífurlegar skipulagsbreytingar verið gerðar í Qin-ríki. Breytingarnar eru kenndar við svokallaða löghyggju (法家, Fajia). Qin-ríkið einkenndist á þessum tíma meðal annars af gífurlegum heraga og grimmilegum refsingum fyrir smæstu afbrot. Herinn hafði verið efldur gríðarlega og var Qin-ríkið án efa öflugasta ríki Kína.
Þar sem ríkið hafði verið sundrað í mörg hundruð ár vildu keisarinn og ráðgjafar hans leggja allt kapp á að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur. Byrjað var á því að afnema lénskipulagið og var ríkinu skipt í 36 stjórnsýslueiningar og ráðamenn í hverri einingu voru skipaðir af keisaranum sem einnig gat rekið þá eftir geðþótta. Hér var þó í rauninni um að ræða stjórnskipulag sem verið hafði við lýði í Qin-ríkinu um nokkurt skeið. Hinum gamla aðli sem átti mikilla hagsmuna að gæta af lénskipulaginu var skipað að flytja til höfuðborgarinnar Xianyang (咸阳) svo hægt væri að hafa eftirlit með þeim. Til að stuðla að sameiningu landsins voru meðal annars gjaldmiðlar og mælieiningar samræmdar um allt ríkið og lög sett um leyfilega lengd milli hjólbarða á hestvögnum svo að allir gætu ekið eftir sömu vegum. Farið var í gríðarlegar samgönguframkvæmdir og tugir ef ekki hundruðir þúsunda manna voru kallaðir í þegnskylduvinnu til þess að leggja vegi, grafa skipaskurði og fleira. Í norðri voru varnarveggir sem hin ýmsu ríki höfðu byggt til varnar hirðingjaárásum, sameinaðir í einn og var þá kominn grunnurinn að Kínamúrnum, þótt hann væri í nokkru frábrugðinn múrnum sem núna stendur. Einnig var farið í landvinningahernað suður á bóginn og var landsvæðið sem nú er Guangdong (广东) innlimað í ríkið. Auk þess lét Zheng byggja fyrir sig risavaxna höll og grafhýsi með rúmlega 8.000 leirhermönnum í fullri stærð. Grafhýsið með leirhermönnunum fannst ekki fyrr en árið 1974.
Eitt merkasta verk Zheng (Shi Huangdi) var að samræma ritmál Kínverja.
Í grafhýsi Zheng (Shi Huangdi) fundust 8.000 leirhermenn í fullri stærð.
Keisarinn eignaðist marga óvini vegna harðstjórnar sinnar og stórtækra aðgerða. Margoft var reynt að ráða hann af dögum og þegar fram liðu stundir fór þetta að taka sinn toll. Keisarinn varð afar vænisjúkur og óttaðist stöðugt um líf sitt. Hann réð fjölda tvífara til þess að rugla mögulega morðingja í ríminu og flutti sig reglulega um set. Hann hóf jafnframt að leita að elixír sem myndi gera hann ódauðlegan. Ekki varð honum kápan úr því klæðinu því Zheng lést 10. september 210 f.Kr skammt frá höfuðborginni. Sumar heimildir herma að það hafi verið eitrað fyrir honum. Eftir dauða keisarans komu ráðgjafar hans einum af sonum hans í hásætið og er hann þekktur sem Qin er Shi (秦二世) eða annar keisari af Qin. Qin er Shi réð þó illa við að stjórna þessu stóra ríki og fljótlega var gerð uppreisn. Qin-ríkið féll því árið 207 f.Kr. aðeins 14 árum eftir stofnun þess. Við því tók Han-ríkið (汉朝) sem mildaði töluvert hin ströngu lög Qin-ríkisins þó það hafi haldið þeim í grófum dráttum. Eftir fall Qin-ríkisins voru kínverskir fræðimenn nánast einróma í fordæmingu sinni á keisaranum. Hann var sagður grimmur og hjátrúarfullur mikilmennskubrjálæðingur sem hafi þrælað þegnum sínum út. Sérstaklega var mikið gert úr bókabrennum hans og aftökum á menntamönnum. Það verður þó auðvitað að hafa í huga að þeir menntamenn sem lögðu línurnar voru embættismenn í hinu nýstofnaða Han-veldi og skiljanlega vildu þeir fjarlægja sig frá hinu óvinsæla Qin-ríki. Auk þess voru þessir menn flestir menntaðir í konfúsískum fræðum og þar af leiðandi á öndverðum meiði við hina hörðu löghyggju. Á tuttugustu öld hefur viðhorfið gagnvart 1. keisaranum mildast og margir hafa horft til jákvæðra afleiðinga af stjórnartíð hans, svo sem sameiningu ríkisins og samræmingu ritmálsins. Meðal annars hafa verið færð rök fyrir því að samræmt ritmál hafi ollið því að menntastétt Kína hafi fundið til meiri samkenndar en ella þar sem fjölmargar mállýskur eru talaðar í landinu. Þetta hafi því átt stóran þátt í því að Kína er enn í dag eitt ríki. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig var líf kvenna í Kína á árunum 1000 f.Kr. til 200 f.Kr.? eftir Geir Sigurðsson
- Getið þið sagt mér allt um Kína, helst sem fyrst? eftir Sigrúnu Harðardóttur
- Hvers vegna varð Kína aldrei heimsveldi eins og Rómaveldi? eftir Gísla Gunnarsson
- Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag? eftir Geir Sigurðsson
- Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína? eftir Sverri Jakobsson
- Hvers vegna eru árin í Kína látin heita eftir dýrum? eftir Jón Egil Eyþórsson
- Patricia B. Ebrey. China, Cambridge Illustrated History. London, 2000
- McKay, Hill, Buckler, Ebrey. A history of world societies, Volume A. 6.útgáfa, Boston, 2004.
- The C´hin and Han Empires 221B.C-A.D 220. The Cambridge History Of China, 1. bindi. Denis Twitchett og Michael Loewe sáu um útgáfu. Cambridge, 1986.