Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þar sem þetta tímabil spannar afar mikilvægt umbrotaskeið í sögu Kína til forna er rétt að veita fyrst örstutt yfirlit yfir það. Zhou-keisaraveldið tók við af hinu grimmilega Shang-veldi á 11. öld f.Kr. Fyrstu aldirnar var þetta friðsamlegt blómaskeið þar sem fjölmörg einkenni kínverskrar siðmenningar festust í sessi. Á 7. öld f.Kr. tók aftur á móti að bera á stigvaxandi togstreitu milli hertoga og fursta veldisins og snemma á 5. öld f.Kr. voru árekstrar einstakra ríkja orðnir svo algengir og alvarlegir að þeir mörkuðu upphaf hins svokallaða „tíma hinna stríðandi ríkja“ (zhanguo 战国). Þetta var skelfilegt skeið nánast stöðugra hernaðarátaka sem átti eftir að standa yfir í 250 ár, eða allt þar til fyrsti keisarinn, Qin Shihuang sameinaði veldið í eitt árið 221 f.Kr. Keisaraveldi hans varaði þó ekki nema í 15 ár eða til 206 f.Kr. þegar Han-keisaraveldið tók við.
Fornrit, sögur og ljóð frá þessu tímabili benda til þess að konum var almennt ætlað að vera blíðar, rólegar, virðulegar og undirgefnar eiginmönnum sínum. Þannig var Kína til forna vissulega karlveldi en svo virðist sem konur hafi samt lifað við mun meira frjálsræði en síðar þegar fótareyringar hófust á 8.-9. öld e.Kr.
Kínverskar konur á tímum Tang-keisaraveldisins. Athugið að myndin er ekki frá tímabilinu 1000 f.Kr.-200 f.Kr. heldur er hún nokkuð yngri.
Hlutur fjölskyldunnar hefur ávallt verið veigamikill í kínverskri menningu og þar hefur konan ætíð skipað mikilvægan sess, enda þótt henni hafi jafnan verið skipað skör lægra en karlinum. Líf kvenna sem tilheyrðu aðalsstétt var þó afar frábrugðið lífi kvenna af bændastétt. Eins og gefur að skilja bjuggu þær fyrrnefndu við mun betri kjör hvað varðar allan aðbúnað og þægindi. Innan aðalsstéttanna var regluveldi aftur á móti meira og undirgefin staða kvenna skýrari en meðal bændafólks.
Í sveitum var vinnuálag mikið og gilti það ekki síst um konur sem unnu ekki aðeins á ökrunum heldur sáu einnig um börn og bú. Á hinn bóginn virðist sem staða konunnar gagnvart eiginmanni sínum hafi þar verið mun nær jafnræði en innan aðalsstéttarinnar. Á meðal aðalsmanna var algengt að eiga margar hjákonur og að öllu jöfnu voru það fjölskyldurnar en ekki pörin sjálf sem ákváðu hjónabönd. Fólk í dreifbýli bjó hins vegar við meira frelsi til að velja sér maka upp á eigin spýtur.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Geir Sigurðsson. „Hvernig var líf kvenna í Kína á árunum 1000 f.Kr. til 200 f.Kr.?“ Vísindavefurinn, 21. ágúst 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6137.
Geir Sigurðsson. (2006, 21. ágúst). Hvernig var líf kvenna í Kína á árunum 1000 f.Kr. til 200 f.Kr.? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6137
Geir Sigurðsson. „Hvernig var líf kvenna í Kína á árunum 1000 f.Kr. til 200 f.Kr.?“ Vísindavefurinn. 21. ágú. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6137>.