Sé vöðvasýnið tekið úr vöðva eins og Vastus lateralis (lærvöðvi á utanverðu framanverðu lærinu) eins og algengt er að gera, gefur það nokkuð góða mynd af hlutfalli hraðra og hægra vöðvafruma hjá einstaklingum. Þar sem vöðvafrumurnar eru dreifðar nokkuð jafnt um vöðvann er nóg að taka eitt sýni úr honum. Þessi aðferð er hins vegar mjög ágeng og einungis gerð í rannsóknarskyni. Vöðvasýnataka er ekki veitt sem þjónustumæling og því er ekki hægt að biðja um mælingu á hlutfalli hraðra og hægra vöðvafruma á sama hátt og maður biður til dæmis um mælingu á blóðþrýstingi. Einstaklingar geta hins vegar fengið ákveðna hugmynd um hvort þeir séu með meira af hægum eða hröðum vöðvafrumum. Sé viðkomandi mjög fljótur eða getur stokkið hátt í loft upp er líklegt að hann hafi hærra hlutfall af hröðum vöðvafrumum. Sé viðkomandi hins vegar góður í langhlaupum er líklegt að hann hafi hærra hlutfall af hægum vöðvafrumum. Ýmis próf sem framkvæmd eru á íþróttamönnum á rannsóknarstofum gefa þetta hlutfall hraðra og hægra vöðvafruma vel til kynna. Eitt slíkt er svokallað Wingate-hjólapróf. Það fer þannig fram að viðkomandi hjólar eins hratt og hann getur á þrekhjóli í 30 sekúndur með viðnámið á hjólinu stillt á 7,5-8,5% af líkamsþyngd. Þeir sem geta myndað mikið hámarksafl (W) á hvert kg líkamsþyngdar (W/kg) á fyrstu sekúndum prófsins eru með hærra hlutfall hraðra vöðvafruma. Þeir sem tapa hins vegar litlu afli á þessum 30 sekúndum hafa mikið þreytuviðnám og hærra hlutfall hægra vöðvafruma. Hjá þessum einstaklingum er lítill munur á hámarks- og lágmarksafli sem mælt er. Hægt er að komast í svona próf og önnur sambærileg hér á landi og geta þau gefið sterklega til kynna hlutfall hraðra og hægra vöðvafruma. Hins vegar er rétt að benda á að flestir hafa mjög jafna skiptingu hraðra og hægra vöðvafruma, rúmlega 50% hægar og tæplega 50% hraðar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig er hægt að hlaupa hraðar? eftir Sigurbjörn Árna Arngrímsson
- Hvernig stendur á því að fljótustu spretthlauparar heims eru nánast allir svartir? eftir Sigurbjörn Árna Arngrímsson