Þeldökkt fólk hefur yfirleitt meiri vöðvamassa sem hlutfall af fitulausum massa en þeir sem eru ljósari á hörund. Fitulaus massi er öll þyngd líkamans sem ekki er fita, það er vöðvar, bein, líffæri og svo framvegis. Vöðvamassinn er sá hluti fitulausa massans sem knýr okkur áfram. Þar sem þeldökkir hafa almennt meiri vöðvamassa sem hlutfall af öllum fitulausa massanum, fer meira af þyngd líkama þeirra í að koma þeim áfram, en þyngd líkamans er eitt af því sem hægir á hlaupahraðanum. Dökkir einstaklingar hafa einnig yfirleitt lengri fótleggi (og handleggi) sem hlutfall af hæð líkamans. Það þýðir að þeir geta tekið lengri skref miðað við hæð. Lengri skref á sömu skreftíðni þýðir að hægt er að komast yfir lengri vegalengd á sama tíma eða fara sömu vegalengd á styttri tíma. Spretthlaup snúast einmitt um að fara ákveðna vegalengd á sem stystum tíma. Að lokum má benda á að þeldökkt fólk er oftast með hærra hlutfall af vöðvamassa fótleggjanna fyrir ofan hné. Það þýðir að minni þyngd er borin fyrir neðan hné og það eykur hlaupahagkvæmnina, menn nota þá minni orku í hverju skrefi. Því lengra frá massamiðju líkamans sem þyngd er borin, þeim mun erfiðara er að hlaupa. Þetta er auðvelt að sannreyna með því að festa 5 kg á búk líkamans og hlaupa tiltekna vegalengd, og síðan að festa 2,5 kg fyrir ofan hvorn ökkla og hlaupa sömu vegalengd. Hlaupahagkvæmnin skiptir reyndar meiru máli í langhlaupum en séu menn jafnir á öllum öðrum þáttum í spretthlaupum mun hlaupahagkvæmnin skera úr um sigurvegara. Þar sem gríðarlega hæfileika þarf til að komast í úrslit í spretthlaupum á Ólympíuleikum og þeldökkir eru almennt með hærra hlutfall hraðra vöðvafruma, hærra hlutfall vöðvamassa af fitulausum massa, lengri fótleggi sem hlutfall af hæð og eru hagkvæmari (bera hærra hlutfall vöðvamassa fótleggjanna fyrir ofan hné), þá er ekki skrítið að þeir sem komast í úrslit séu oftast dökkir á hörund. Það eru miklu meiri líkur að allir þeir þættir sem þarf til þess að skapa Ólympíumeistara í 100 m hlaupi sameinist í þeldökkum mönnum vegna arfgerðar þeirra. Hins vegar koma alltaf regululega fram einstaklingar sem er ljósir á hörund og eru gæddir öllum ofangreindum eiginleikum og eiga þeir því alveg jafn mikla möguleika á sigri. Hins vegar má ekki gleyma því að ýmsir andlegir þættir eins og einbeiting, spennustig, sigurvilji, keppnisskap og fleira, skipta líka verulegu máli fyrir árangur í spretthlaupum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig er hægt að hlaupa hraðar? eftir Sigurbjörn Árna Arngrímsson
- Er einhver munur á kynþáttum andlega, til dæmis á gáfum svartra og hvítra manna? eftir Kristínu Loftsdóttur
- Eru kynþættir ekki til? eftir Agnar Helgason
- Af hverju eru sumir menn svartir en aðrir hvítir? eftir Einar Árnason