Það sem í raun ræður tegund vöðvafrumunnar er taugafruman sem vöðvafruman fær boð frá. Hver taugafruma sendir annað hvort hröð eða hæg boð. Sendi taugafruman hröð taugaboð verður vöðvafruman hröð og dregst hratt saman. Til þess að auka hlaupahraða geta menn þess vegna reynt að auka tíðni taugaboðanna sem vöðvafrumurnar fá. Það er hægt að gera á nokkra vegu:
- Taka stutta spretti þar sem hlaupið er á fullu með góðum hvíldum. Þannig lærir líkaminn smám saman að kalla á þær vöðvafrumur sem þarf til að hlaupa hratt og virkjar hraðar taugabrautir. Jafnframt lærir líkaminn tæknina við að hlaupa og þar með að senda boð einungis til þeirra vöðvafruma sem framkvæma hlaupahreyfinguna og ekki þeirra vöðvafruma (hægra sem og hraðra) sem vinna á móti hreyfingunni.
- Hoppa og gera æfingar sem byggja á snerpu til dæmis kasta þyngdarbolta (medisínbolta). Við slíkar æfingar lærir líkaminn að virkja hraðar taugabrautir auk þess sem það teygist aðeins á vöðvunum við svona æfingar og sú teygja leyfir kraftmeiri og hraðari vöðvasamdrátt, ekki ósvipað því og þegar gúmmíteygja er teygð og svo sleppt.
- Gera ólympískar lyftingar (snörun og jafnhendingu) með meðalþyngdir. Þessar æfingar þarf að gera hratt og snöggt, því þannig örvar líkaminn hröðu taugafrumurnar og sendir boð til hröðu vöðvafrumanna.
- Fer jafnmikil orka í að hlaupa á hlaupabretti og utan dyra? eftir Sigurbjörn Árna Arngrímsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig stækka vöðvarnir? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað getið þið sagt mér um vöðvavefi dýra? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað eru taugaboð og hvernig verka þau? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur