Þessar heimsendaspár bera frekar vitni um frjótt hugmyndaflug kenningasmiða sinna en raunveruleg endalok heimsins. [...] Þó kjarnorkustríð gæti vissulega eytt mannkyninu eru engar vísbendingar um að það sé líklegra nú en áður; segulpólarnir hafa oft skipt um stöðu, síðast fyrir um 800.000 árum, án þess að hafa teljanleg áhrif á sögu lífs á jörðinni; það eru hverfandi líkur á að risapláneta á sporbraut um sólina hafi dulist augum manna síðustu þúsund ár; og vegna þess að jörðin snýst um sólina eru jörðin, sólin og miðja vetrarbrautarinnar í beinni línu tvisvar á ári, og hingað til hefur það ekki haft heimsendi í för með sér.Eins hafa margir haft áhyggjur af tilraunum vísindamanna hjá CERN með sterkeindahraðal en um hann er nánar fjallað í svari við spurningunni Ógna tilraunir CERN með stóra sterkeindahraðlinum tilvist heimsins?
Eftir því sem við best vitum er ekki von á heimsendi í bráð en þess má þó geta að vísindamenn telja að vetnisforði sólarinnar muni duga í um 5 milljarða ára í viðbót. Það er mjög langur tími í svari Þorsteins Þorsteinssonar við spurningunni Hvenær deyr mannkynið? Hvenær deyr sólin? segir þetta um endalok sólarinnar:
Samkvæmt þeirri þekkingu sem vísindamenn hafa aflað sér um æviferla sólstjarna er ljóst að ekki þarf um þessar mundir að hafa áhyggjur af endalokum sólar. Þegar þar að kemur, eftir óralangan tíma, má búast við að afkomendur okkar verði svo langt komnir á þróunarbrautinni að þeir nái að flytjast til annars sólkerfis í tæka tíð.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.