Eitt og sér er athyglisvert að flestar þessar heimsendaspár eiga ártalið 2012 sameiginlegt, en þar að auki tiltaka margar þeirra ákveðna dagsetningu: 21. desember 2012. Þessi dagsetning tengist siðmenningu Maya, en þá tekur eitt dagatal þeirra enda. Undir lok 9. áratugarins settu nokkrir nýaldarspekingar fram þá hugmynd að daginn þegar þetta dagatal tæki enda væri von á miklum hörmungum. Þessar hugmyndir hlutu nokkurn hljómgrunn innan nýaldarhreyfingarinnar, og hafa nú öðlast sjálfstætt líf. Fólk sem tengist nýaldarspeki ekki neitt er farið að tengja þessa dagsetningu við heimsendi. Dagatalið sem um ræðir er kallað langa talningin (e. Long Count). Það er sprottið út úr sameiningu tveggja eldri dagatala, auk þarfarinnar til að geta skráð sögu þjóðar sem spannar nokkur hundruð ár. Dagsetningar eru táknaðar með fimm tölum sem sýna hversu langur tími er liðinn frá fyrirfram ákveðnum degi. Þessi upphafsdagur, sem var táknaður sem 0.0.0.0.0 í dagatali Maya, er 11. ágúst árið 3114 f.Kr. að okkar tímatali, og þegar þetta er skrifað er dagurinn 12.19.15.10.8 samkvæmt tímatali Maya, eða 12. ágúst 2008. Til að fá hugmynd um hvernig dagatalið virkar er best að taka nokkur einföld dæmi:
0.0.0.0.1 táknar 1 dag, 0.0.0.1.0 táknar 20 daga, 0.0.1.0.0 táknar um það bil eitt ár, eða 360 daga, 0.1.0.0.0 táknar tæp 20 ár, eða 7200 daga, og 1.0.0.0.0 táknar tæp 400 ár, eða 144.000 daga.Flestar tölurnar í dagatalinu ganga svo frá 0 og upp í 19, nema miðjutalan sem gengur frá 0 og upp í 17, og talan lengst til vinstri sem ákveðin óvissa ríkir um; helst telja menn að hún eigi annað hvort að vera á milli 0 og 12, eða á milli 0 og 19. Ef hún gengur bara upp í 12, þá tekur dagatalið enda á degi sem má tákna með 13.0.0.0.0, en það er einmitt 21. desember árið 2012 að okkar tímatali. Við vitum ekki hvort Mayar héldu að eitthvað merkilegt myndi gerast á þessum degi, og sér í lagi ekki hvort þeir töldu að það yrði heimsendir. Reyndar er það ólíklegt í ljósi þess að þeir trúðu að tíminn væri lotubundið fyrirbæri; samkvæmt Mayum hafði veröldin verið til á undan deginum 0.0.0.0.0, og hún yrði áfram til eftir að dagatal þeirra tæki enda. Miðað við reynslu okkar í vestrænu þjóðfélagi er það í raun nokkuð undarleg hugmynd að tengja saman endalok dagatals og heimsendi. Á hverju ári endurtaka sömu mánaðardagarnir sig í okkar dagatali; þannig getum við gengið að því vísu að 12. ágúst hafi verið á síðasta ári, sé á þessu ári, og verði aftur á næsta ári. Dagatalið okkar tekur enda þann 31. desember, og á eftir honum kemur einfaldlega 1. janúar, en ekki heimsendir. Á sama hátt er hæpið að ætla að heimsendir verði þann 21.12.2012 þrátt fyrir að þá taki dagatal Maya enda, og því engin ástæða fyrir landsmenn að sleppa jólaundirbúningnum það árið. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Á stjarna eftir að lenda á jörðinni og eyða henni? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvað eru Inkar? eftir Þórunni Jónsdóttur.
- Hver er talin ástæða þess að menning Inka og Maya í Suður-Ameríku féll? eftir Gísla Gunnarsson.
- Dagatöl Maya á Wikipedia.
- Langa talningin á Wikipedia.
- Enginn dómsdagur árið 2012 af vefsíðu Universe Today.
- Myndirnar voru fengnar af Flickr síðu Pierre J. og af Wikipedia.
Jón Daði Böðvarsson, Smári Freyr Snæbjörnsson, Sveinbjörg Birta Ágústsdóttir og Sveinn Ólafsson.