Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skakki turninn í borginni Písa á Ítalíu er sjö hæða hár klukkuturn sem er frægur um allan heim fyrir að halla ískyggilega. Turninn er rúmlega 800 ára gamall. Vinna við hann hófst árið 1173, en vegna tafa af völdum ýmissa stríða var lokahöggið við bygginguna ekki slegið fyrr en tæpum 200 árum seinna.
Turninn byrjaði að halla strax árið 1178, aðeins fimm árum eftir að bygging hans hófst. Ástæðan er einfaldlega sú að hönnun turnsins var gölluð frá upphafi; grunnurinn nær aðeins þrjá metra niður í jörðina, en turninn sjálfur er rúmir 55 metrar að hæð, og jarðvegurinn undir turninum færist auðveldlega til. Menn telja að aðalástæðan fyrir að turninn hafi ekki fallið á miðöldum sé að það varð rúmlega aldar löng samfelld töf á byggingu hans, og á þeim tíma fékk undirlag hans tíma til að setjast og jafna sig.
Við upphaf 20. aldarinnar var ljóst að það var talsverð hætta á að turninn félli, og ýmsar aðgerðir voru reyndar til að rétta hann af, með misjöfnum árangri. Á síðustu 20 árum hafa Ítalir ráðist í miklar framkvæmdir til að bjarga turninum, með þeim árangri að það tókst bæði að rétta turninn aðeins af og stöðva hreyfingu hans. Í dag hallar turninn um tæpar 4 gráður, og þó turninn muni án efa falla á endanum eins og öll mannanna verk, þá telja verkfræðingar nú að hann verði stöðugur í að minnsta kosti 200 ár í viðbót.
Skakki turninn í Písa er vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna, og eftir að framkvæmdunum við hann lauk er aftur hægt að klifra upp í hann, en turninn var lokaður á milli 1990 og 2001. Ýmsar sögur eru til um turninn, og ein sú frægasta segir hvernig Galíleó Galíleí lét tvær misþungar málmkúlur detta úr honum til að sýna fram á að þær féllu jafnhratt. Sagnfræðingar telja reyndar að Galíleó hafi aldrei framkvæmt þessa tilraun í alvörunni, en sagan er góð, og lesendur sem eiga leið um Písa geta reynt að framkvæma þessa tilraun.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Þór Magnússon. „Af hverju er Skakki turninn í Písa skakkur?“ Vísindavefurinn, 14. ágúst 2008, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48629.
Gunnar Þór Magnússon. (2008, 14. ágúst). Af hverju er Skakki turninn í Písa skakkur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48629
Gunnar Þór Magnússon. „Af hverju er Skakki turninn í Písa skakkur?“ Vísindavefurinn. 14. ágú. 2008. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48629>.