Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er til fólk sem er tvíkynja? Ef svo er, af hverju stafar það og af hvaða kyni verður einstaklingurinn?
Hversu algengt er að fólk fæðist tvíkynja?
Eru til tvíkynja manneskjur? Hversu algengt er þá að menn fæðist með tvö ólík kynfæri?
Rétt er að taka fram í upphafi að hér er nær eingöngu fjallað um líffræðilegt kyn sem birtist í líkamlegum kyneinkennum en ekki kynvitund eða kyntjáningu. Áhugasömum lesendum er bent á að kynna sér jafnframt svar við spuningunni Getur fólk verið af millikyni?
Í hugum margra er lífræðilegt kyn augljóst mál þar sem fólk er ýmist með XX eða XY kynlitninga. Sé einstaklingur með XX kynlitninga hafa myndast eggjastokkar á fósturskeiði sem framleiða hormóniðestrógen og í kjölfarið af því fæddist stúlkubarn með dæmigerð kvenkynfæri. Sé einstaklingur aftur á móti með XY hafa myndast eistu í honum á fósturskeiði sem framleiða hormónið testósterón og í kjölfarið fæddist drengur með dæmigerð karlkynfæri.
Raunin er þó sú að kynferði liggur ekki alltaf svona ljóst fyrir. Annað slagið kemur fyrir að barn fæðist með ódæmigerð kynfæri þannig að ekki er hægt að greina hvort það er stúlku- eða sveinbarn. Þá er talað um tvíræð kynfæri (e. ambiguous genitalia) og kynferðistvíræðni (e. sexual ambiguity). Slíkir einstaklingar eru kallaðir millikynjungar (e. intersexuals) eða intersex einstaklingar og skilgreiningin á þeim er „einstaklingur sem fæðist með kynfæri og/eða síðkomin kyneinkenni á milli beggja kynja“.
„Fáni intersex fólks er fjólublár hringur á gulum fleti en þeir litir eiga að tákna Hermafródítu. Hinn óbrotni hringur táknar að intersex fólk sé heilt og fullkomið og auk þess rétt intersex fólks til að vera eins og þau vilja vera." (Tákn hinsegin samfélagsins - Hinsegin frá Ö til A).
Millikynjun (e. intersexism) er nokkuð yfirgripsmikið hugtak og nær yfir margt sem fellur undir skilgreininguna hér að ofan. Tvíkynjun (e. hermaphroditism) er hugtak sem kom fram um miðja 20. öld og er notað í sumum tilfellum enn þann dag í dag. Hugtakið var myndað úr nöfnum gríska goðsins Hermesar og grísku gyðjunnar Afródítu og átti að gefa til kynna að þau væru sameinuð í einum líkama. Tvíkynjun er meðfætt ástand sem einkennist af því að í sama einstaklingi er bæði eggjastokka- og eistavefur sem leiðir til þess að bæði ytri og innri kynfæri eru með karl- og kvenlega eiginleika. Þessir einstaklingar hafa ekki allar frumur eins hvað varðar kynlitninga, það er sumar frumur hafa XX litninga en aðrar XY, og mætti kalla slíkt kyntíglu.
Í hefðbundnum fósturþroska veldur svokallað SRY-gen á Y-litningi því að fósturkynkirtlar þroskast í eistu. Ef genið vantar verða fósturkynkirtlarnir eggjastokkar. Frekari þroskun innri og ytri kynfæra ákvarðast af kynhormónum sem kynkirtlarnir (eistu eða eggjastokkar) framleiða og því hvernig frumurnar bregðast við þeim.
Upphafleg birting fósturkynkirtla nokkrum vikum eftir getnað er í grundvallaratriðum kvenleg, enda fóstrið inni í kvenlíkama. Hér er um að ræða par þvag- og kynfærafellinga með litla útbungun í miðjunni og þvagrás á bak við hana. Myndi fóstur eistu og ef þau framleiða testósterón og ef frumurnar bregðast við testósteróni þrútna ytri þvag- og kynfærafellingarnar, renna saman í miðjunni og mynda pung. Útbungunin stækkar og réttir úr sér og verður að getnaðarlim. Innri þvag- og kynfærafellingar þrútna, vefjast um liminn, renna saman í miðjunni og verða að þvagrás limsins.
Fósturþroskunin tekur aðra stefnu ef kynkirtlarnir eru eggjastokkar og endar í myndun kvenkynfæra, sem sagt skapabarma (sem samsvara pung), sníps (sem samsvarar lim), legganga og legs.
Ýmislegt getur farið á annan veg í þessum ferlum og getur barn því fæðst með ýmsar útgáfur af kynfærum þannig að erfitt reynist að kyngreina það.
Til skamms tíma hefur verið litið svo á að karlmenn séu með XY og konur XX kynlitninga. Nú er hins vegar vitað að í reynd er um þó nokkra aðra möguleika á kynlitningasamsetningu að ræða þar sem einstaklingar geta haft einn eða fleiri auka kynlitninga. Þessir einstaklingar geta haft einhver einkenni hins kynsins en eru þó það væg tilfelli að það fer yfirleitt ekki milli mála af hvoru kyninu þeir eru. Einnig eru þekktir XX karlar, XY konur og einstaklingar sem fylgja ekki hefðbundnu mynstri á annan hátt.
Kynlitningarnir og samsetning þeirra í einstaklingum hafa mikilvæg áhrif á þroskun kynferðis en ekki er eingöngu hægt að líta til þeirra varðandi kynferði frekar en hægt er að nota kynkirtlavef til þess að ákvarða „hið sanna kynferði“ eins og áður var gert. Í reynd er kynferði ákvarðað af miklum fjölda þátta og þegar þessir þættir eru í mótsögn hver við annan er enginn einn þáttur mikilvægari við kynákvörðun.
Þess ber að geta að gen á öðrum litningum en kynlitningum og afurðir þeirra hafa einnig áhrif. Hormón eru til að mynda annar mikilvægur þáttur svo og næmni frumna fyrir þeim. Þess má geta að allir mynda svolítið af karl- og kvenkynhormónum í nýrnahettum sínum. Ein algengasta orsök millikynjunar er gen sem veldur því að nýrnahettur mynda of mikið af testósteróni og ef einstaklingurinn er kona (XX) verður svokölluð karlgerving hennar reyndin, en í mismiklum mæli þó eftir einstaklingum. Hvernig þessir þættir spila saman ákvarðar lokaútkomuna varðandi kynferði.
Nokkuð er á reiki hversu algeng millikynjun er og fer það eftir því hvaða rannsóknir eru skoðaðar hvaða tölur eru nefndar. Sumir sérfræðingar áætla að tíðni millikynjunar í einhverri mynd sé um 1% af lifandi fæðingum, það er með einhvers konar kynferðistvíræðni, en í 0,1 - 0,2% tilfella sé um það mikla tvíræðni að ræða að sérfræðileg læknismeðferð, meðal annars skurðaðgerð, er talin nauðsynleg. Aðrar rannsóknir áætla að tíðni millikynjunar sé miklu lægri eða um 0,018%.
Heimildir, frekari fróðleikur og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er hægt að vera tvíkynja?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4834.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2005, 14. mars). Er hægt að vera tvíkynja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4834
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Er hægt að vera tvíkynja?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4834>.