Til að finna fórnarlömb sín beita moskítóflugur nokkrum mismunandi aðferðum. Þær geta til dæmis skynjað styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu, en allar lífverur sem anda að sér súrefni skila frá sér koltvísýringi. Þannig geta moskítóflugur greint andardrátt manneskju í allt að 35 metra fjarlægð. Þegar nær dregur geta flugurnar skynjað líkamshita sem innrautt ljós, og þær geta einnig skynjað ýmsa líkamslykt, til dæmis svitalykt. Þar að auki geta þær skynjað hreyfingar gegnum venjulega sjón. Flugurnar eru virkastar í ljósaskiptunum á morgnana og kvöldin og því er mesta hættan á að verða bitinn á þeim tíma. Líkt og hjá öðrum skordýrum sem sjúga blóð hafa þróast hjá moskítóflugum leiðir til að vinna á móti eðlilegri storknun blóðsins sem þær drekka. Þegar fluga bítur fórnarlamb sitt sprautar hún munnvatni inn í sárið áður en hún byrjar að drekka. Í munnvatninu eru fjölmörg efni, til dæmis prótín sem sporna gegn storknun blóðs. Ónæmiskerfi fórnarlambsins ræðst á þessi prótín og reynir að brjóta þau niður; í kjölfarið myndast bólgur í kringum bitið og þessu getur fylgt töluverður kláði. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki ástæða til að leita læknis vegna moskítóbita. Bitin erta og geta verið sársaukafull en þau eru venjulega ekki hættuleg heilsu manna. Ef mjög sterk ofnæmisviðbrögð koma fram getur þó verið ráðlegt að leita til læknis. Svimi eða ógleði í kjölfar bitsins geta verið dæmi um alvarleg ofnæmisviðbrögð sem og mikil bjúgsöfnun. Moskítóflugur geta borið með sér ýmsa sjúkdóma, en í Ástralíu, Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og á Nýja-Sjálandi er hættan á að smitast gegnum bit þó hverfandi. Mælt er með því að þvo bitin með mildri sápu og forðast að klóra svæðið. Það getur dregið úr óþægindunum tímabundið að annaðhvort kæla eða hita svæðið í kringum bitið. Í apótekum má einnig finna krem með ofnæmislyfjum (e. antihistamine) sem létta kláðann í lengri tíma. Viðbrögð fólks við moskítóbitum og hversu lengi þau vara eru afar einstaklingsbundin og þar skiptir tegund moskítóflugnanna einnig máli. Óþægindin geta varað í allt frá einum degi og upp í rúma viku. Í Afríku, Asíu, Mið- og Suður-Ameríku geta moskítóflugur borið með sér hitabeltissjúkdóma á borð við gulu, malaríu og vesturnílarveikina. Árlega má rekja dauða milljóna manna á þessum svæðum til moskítóbita. Á ferðalögum á þessum landssvæðum er því mikilvægt að vera meðvitaður um þær sýkingar sem einkennt geta svæðin. Það er vert að taka það fram að ekki er hægt að smitast af HIV veirunni gegnum moskítóbit. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim möguleika að moskítóflugur geti borið HIV veiruna á milli manna og allar niðurstöður hafa sýnt að HIV veiran getur hvorki lifað í rana né meltingarvegi moskítóflugna nógu lengi til að hætta sé á smiti milli manna. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi? eftir Gísla Má Gíslason.
- Er hægt að lækna malaríu? Í hverju felst meðferðin? eftir Magnús Jóhannsson.
- Hvað er vesturnílarvírus? eftir Guðmund Óla Scheving.
- Getur HIV-veiran borist með flugum? eftir Magnús Jóhannsson.
- Heimasíða American Mosquito Control Association.
- Grein á How Stuff Works um moskítóflugur.
- Grein á Wikipedia um moskítóflugur.
- Mynd af karlkyns Culex Pipiens var fengin af Flickr síðu naturalhistorymans. Birt undir Creative Commons 2.0 by-nc-nd skírteini.
- Mynd af kvenkyns Culex Pipiens var fengin af Wikimedia Commons.
- Mynd af moskítóflugu að sjúga blóð var fengin af Flickr síðu Erics Bégins. Birt undir Creative Commons 2.0 by-nc-nd skírteini.
- Af hverju klæjar manni af moskítóflugu biti?
- Hvað lifa moskítóflugur lengi?
- Hvernig finnur moskítófluga manneskju til að sjúga blóð?