Moskítóflugur, Culicidae, eru tvívængjur, Diptera, sem lifa um allan heim. Fullorðin kvendýr sjúga blóð úr spendýrum, fuglum og í sumum tilfellum skriðdýrum til að afla næringar og próteina. Án blóðmáltíðar geta þær ekki þroskað egg.
Þær lifa ekki hér á landi, en eru algengar í nágrannalöndunum. Á Grænlandi eru tvær tegundir, Aedes nigripes, sem finnst með allri strandlengjunni og Aedes impiger, sem finnst á Norðvestur-Grænlandi. Í Noregi eru 28 tegundir, þar á meðal Aedes nigripes. Á Bretlandseyjum eru einnig 28 tegundir, en ekki að öllu leyti þær sömu og í Noregi. Í nágrannalöndum austan við Ísland finnst 41 tegund.
Lirfur moskítóflugna lifa í vatni. Þar sía þær þörunga og bakteríur úr vatninu sér til matar. Lirfurnar liggja upp við vatnsyfirborðið og stinga upp pípu til að ná í súrefni úr loftinu. Þær halda sig oft í sefi eða annars staðar meðfram bökkum þar sem skuggi fellur á vatnið.
Púpurnar liggja einnig undir vatnsyfirborðinu og anda með pípum. Fullorðnu moskítóflugurnar eru á kreiki á sumrin. Lirfur þroskast einnig á sumrin, lífsferill þeirra er stuttur og þær geta haft nokkrar lífsferla á ári. Í köldum löndum eru moskítóflugur í dvala á veturna á púpustiginu, en púpustigið er stutt á sumrin.
Allar ytri aðstæður sem lýst var hér á undan eru til staðar hér á landi. Sú tegund sem væri líklegust til þess að lifa hér á landi er Aedes nigripes. Hana fann ég einu sinni um borð í Flugleiðavél á Keflavíkurflugvelli. Vélin var að koma frá Narsassuaq á Grænlandi og var á leið til Frankfurt í Þýskalandi. Vitað er að moskítóflugur geta lifað í hjólaskálum flugvéla í margar klukkustundir og borist þannig á milli landa, þó að hiti háloftanna fari niður í -50°C.
Ástæðurnar fyrir því að moskítóflugur hafa ekki tekið sér bólfestu á Íslandi, og þá sérstaklega tegundin Aedes nigripes, gætu verið eftirfarandi:- Flugurnar hafa ekki borist úr flugförum í náttúruna.
- Flugurnar hafa ekki getað fundið stað til þess að verpa í ef þær hafa borist hingað.
- Lífsferill Aedes nigripes passar ekki við íslenskar aðstæður.
Mynd: HB