Er það rétt að kólnandi sjór taki til sín CO2 og hlýnandi sjór skili honum frá sér, er það rétt eða rangt?Allar lofttegundir sem eru í andrúmsloftinu leysast upp í sjó að einhverju marki og almennt er leysni hverrar þeirra meiri við lágan sjávarhita en háan. Styrkur lofttegunda í andrúmsloftinu er táknaður með hlutþrýstingi, það er hluteind lofttegundarinnar í heildarloftþrýstingi. Þannig eru hlutþrýstingur súrefnis 21% og niturs 78% en styrkur CO2 og fleiri lofttegunda sem eru í lágum styrk er oftast settur fram sem milljónasti hluti loftþrýstingsins, ppm. Fyrir iðnvæðingu var styrkur CO2 í lofti um 278 ppm en var í árslok 2022 kominn í 420 ppm. Aukningin heldur áfram, því enn er jarðefnaeldsneyti helsti orkugjafi mannkyns. Lögmál, sem kennt er við Henry, segir að uppleysanleiki lofttegunda í vökva við fast hitastig sé í beinu samræmi við hlutþrýstinginn þegar jafnvægi er milli lofts og vökvans. Því leitar loft jafnvægis við yfirborð sjávar. Sé hlutþrýstingur CO2 (táknað pCO2) hærri í sjó en í lofti verður flæði úr sjó til lofts en í gagnstæða átt ef hlutþrýstingur er hærri í lofti. Það tekur tíma að ná þannig jafnvægi milli lofts og sjávar, flæðið er hægt í logni en vex með vaxandi vindstyrk í öðru veldi, þannig að ef vindstyrkur þrefaldast, til dæmis úr 5m/s í 15 m/s, þá nífaldast flæði CO2. Til þess að CO2 flæði úr lofti og leysist upp í yfirborðssjó verður hlutþrýstingur í sjónum að vera lægri en í loftinu sem snertir hafflötinn. Það er einkum þrennt sem veldur breytingum á hlutþrýstingi CO2 í yfirborðssjó:
- Hitabreytingar. Ef sjór kólnar eykst leysni lofttegunda í sjónum, pCO2 lækkar. Hlýnun veldur gagnstæðum áhrifum.
- Við ljóstillífun þörunga í yfirborðslagi sjávar binst ólífrænt uppleyst kolefni (CO2) í lífrænan vef, pCO2 sjávar lækkar. Gagnstæða ferlið, öndun/rotnum lífræns efnis leysir CO2 úr lífrænu formi í ólífrænt, pCO2 lækkar
- Uppstreymi eða blöndun CO2 ríks djúpsjávar til yfirborðs, pCO2 hækkar.

1. mynd sýnir hvað flæðið um heimshöfin er breytilegt. Á bláum og fjólubláum svæðum er flæðið úr lofti til sjávar, en á gulum og rauðum svæðum er flæðið úr sjó til lofts.
- Takahashi, T., Sutherland, S.C. o.fl. (2009). Climatological mean and decadal change in surface ocean pCO2, and net sea–air CO2 flux over the global oceans. Deep Sea Research Part II: Topical Studies in Oceanography, 56(8–10), 554-577.