Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er í stuttu máli sagt NEI ef átt er við venjulegan loga. Hins vegar eru til á rannsóknastofum fyrirbæri sem líkjast logum og eru nógu köld til að svarið sé játandi um þau.
Svar við þessari spurningu ræðst af skilgreiningu okkar á loga og því hve lengi hann kann að leika um mannshörund.
Ef við gefum okkur að logi
sé tilkominn vegna bruna efnis (eldsneytis), það er sundrun sameinda í kjölfar efnahvarfs við súrefni,
birtist manninum sem sýnilegt ljós,
gerist við aðstæður af því tagi sem almennt ríkja í kringum okkur (loftþrýstingur um það bil 1 loftþyngd og umhverfishiti nálægt stofuhita)
vari samfellt í lengri tíma (háð magni eldsneytisins og súrefnisins)
og að snerting okkar við logann taki meira en örskamma stund,
-- þá er svarið við spurningunni NEI.
Sami höfundur hefur áður svarað skyldum spurningum hér á Vísindavefnum: Hvað er kertalogi? og Af hverju er eldurinn á kertinu blár neðst og gulur efst? Í þessum svörum kemur fram að aukin varmaorka vegna aukinnar hreyfinga sameinda er í senn fylgifiskur og forsenda logamyndunar. Sýnilegur og stöðugur bruni eldsneytis myndar svo mikla varmaorku að hann getur valdið bruna þegar hann kemst í snertingu við mannshörund í lengri tíma. Hann eykur þá varmaorku / hreyfiorku þeirra sameinda sem þar finnast með þeim afleiðingum að þær mynda líka efnahvarf við súrefni og bruni á sér stað.
Við þekkjum þó eflaust flest frávik frá þessu. Ýmsir ofurhugar leika þann leik að sleikja á sér putta og renna honum því næst í gegnum kertaloga. Þetta er unnt að gera án þess að hljóta bruna af með því að dvelja ekki of lengi með puttann í loganum. Ástæðan er sú að þá fer varmaorkan frá loganum í það að hita upp þunna vatnsfilmu sem umlykur puttann og valda uppgufun vatnsins í stað þess að hita upp hörundið og orsaka bruna.
Annað dæmi af svipuðum toga eru sýningaratriði eldgleypa í fjölleikahúsum (sjá mynd). Áður en eldgleypirinn stingur upp í sig logandi kyndli fyllir hann munninn af eldsneyti. Þegar hann síðan stingur logandi kyndlinum upp í munninn verður eldsneytisvökvinn fyrri til að brenna en hörundið. Jafnfræmt spýtir eldgleypirinn út úr sér brennandi vökvanum og slekkur um leið logann næst munnvikinu og sleppur því óskaddaður.
Þriðja dæmið sem nefna má er stjörnublysið sem við tendrum um áramótin. Okkur verður ekki meint af þótt örlitlar logandi örður skjótist frá stjörnublysinu og dvelji við hörund okkar í örskamma stund. Öll þessi dæmi byggjast á því að bruni í snertingu við hörund tekur afmarkaðan tíma.
Í heimi vísindanna, á rannsóknarstofum efna- og eðlisfræðinga sem fást við fjölbreytilegar efnabreytingar, er logi skilgreindur í víðari merkingu en þeirri sem greint er frá hér á undan. Logi getur myndast við efnabreytingar aðrar en efnahvörf súrefnis við eldsneyti og hann má mynda við sérhæfðar aðstæður, til dæmis lágan þrýsting. Logi getur verið ósýnilegur eða sýnilegur, kaldur eða heitur. Til eru dæmi um slíka loga sem ekki valda bruna.
Ágúst Kvaran. „Er hægt að mynda loga við það lágt hitastig að menn brenni sig ekki á honum?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=481.
Ágúst Kvaran. (2000, 30. maí). Er hægt að mynda loga við það lágt hitastig að menn brenni sig ekki á honum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=481
Ágúst Kvaran. „Er hægt að mynda loga við það lágt hitastig að menn brenni sig ekki á honum?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=481>.