Í lögum er hvergi lagt blátt bann við því að valda sjálfum sér skaða hvort sem það er gert með því að borða eigið hold, skera í það eða beita öðrum aðferðum.
Í þessu felst þó að sjálfsögðu ekki að löggjafinn vilji stuðla að því að menn valdi sjálfum sér skaða, heldur er ástæðan miklu frekar sú að réttur einstaklingsins til að ráða yfir sér sjálfum er viðurkenndur og fólk hefur því yfirráð yfir líkama sínum.
Lög banna til dæmis ekki að fólk valdi sjálfum sér meiðslum eða fari illa með sig, til dæmis með hreyfingarleysi eða ofáti. Slíkar reglur myndu ganga illa upp út frá lagatæknilegum sjónarmiðum, enda væri erfitt að framfylgja slíku banni og skera úr um hvar mörkin milli þess að valda sjálfum sér meiðslum eða ekki lægju.
Það er undir hverjum og einum komið hvað hann gerir við líkama sinn, svo fremi sem það skaðar ekki aðra.
Meira um mannát á Vísindavefnum:
- Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær? eftir Arnar Árnason
- Af hverju stundaði Ídí Amín mannát? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum? eftir Valgerði G. Johnsen