Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til þess að svara þessari spurningu er rétt að spyrja fyrst hvort mannætur hafi nokkurn tímann verið til? Mannfræðingar, fornleifafræðingar og aðrir fræðimenn sem rannsakað hafa heimildir um mannætur í ýmsum þjóðfélögum, eru ekki á eitt sáttir um að reglubundið mannaát hafi nokkurn tímann tíðkast. Þeir sem halda því fram að slíkt hafi átt sér stað, skiptast einnig í fylkingar.
Flestir sem aðhyllast þá kenningu að mannát hafi viðgengist telja þann sið einkum hafa tengst trúarlegum athöfnum, svo sem mannfórnum. Aðrir fræðimenn, þó í miklum minnihluta, hafa hins vegar haldið því fram að mannát hafi verið stundað beinlínis í því skyni að mæta prótínþörf einstaklinga. Helstu rök þessara fræðimanna eru sögusagnir um mannætur í ýmsum þjóðfélögum ásamt fundum á mannabeinum sem bera ýmis merki um mannát.
Talsmenn þessarar kenningar telja að mannaát hafi lagst af þegar maðurinn náði ákveðnu menningarstigi; fór að búa í skipulegri og miðstýrðari þjóðfélögum eða við mótað ríkjaskipulag. Það hlýtur að teljast óhentugt að þegnar sem báru ákveðnar skyldur gagnvart höfðingja eða konungi sínum eigi það til að éta aðra þegna hans.
Efasemdamenn um tilvist mannáts eru almennt á þeirri skoðun að öll umræða um mannætur eigi rætur að rekja til þjóðsagna. Engin vitni eða áreiðanlegir vitnisburðir eru til um mannætur. Þessi hópur fræðimanna telur að þjóðsögurnar hafi orðið til þegar tilteknir þjóðflokkar ásökuðu óvini sína um slíka villimennsku.
Mörg dæmi er að finna um slíkar ásakanir. Kínverjar til forna héldu því fram að Kóreubúar væru mannætur og Kóreubúar voru sannfærðir um að Kínverjar stunduðu mannaát. Á miðöldum voru gyðingar sakaðir um að éta börn kristinna manna. Nornir á miðöldum áttu að hafa murkað lífið úr ungabörnum og haft til átu. Í Bandaríkjum nútímans má enn í dag heyra sögusagnir um fórnir á kornabörnum meðal djöflatrúarmanna, en þeir hafa líka verið ásakaðir um að éta fórnarlömb sín. Sögur í þessum dúr eru án efa ýktar. Mannfræðingurinn Arens, sem rannsakaði þjóðflokk í Tansaníu á 7. áratug 20. aldar, komst til dæmis að raun um að þar voru allir handvissir um að Evrópubúar væru mannætur!
Það er alþekkt að þegar lífi fólks hefur verið stefnt í hættu vegna hungursneyðar hafi einstaklingar lagt sér til munns látna samferðarmenn sína. Flugslysið í Andesfjöllum árið 1972 er frægt dæmi um það. Flugvélin var að flytja knattspyrnulið frá Úrúgvæ til Argentínu þegar hún brotlenti. Einu vistirnar um borð voru súkkulaðimolar. Þegar vistirnar voru uppurnar nærðust þeir sem enn voru á lífi á látnum samferðamönnum sínum. Hið sama var uppi á teningnum á miðri 19. öld þegar Donner-fjölskyldan lenti í hremmingum í Sierra Nevada fjöllunum. Einnig mætti nefna öfgakennd dæmi um mannætur á okkar tímum. Fjöldamorðingjar sem éta fórnarlömb sín, eða einhverja líkamshluta þeirra, eru til dæmis velþekkt fyrirbæri.
Stóra spurningin er hins vegar hvort venjubundið át á mannakjöti hafi nokkurn tímann tíðkast? Getur verið að einhverjir þjóðflokkar hafi stundað skipulegar veiðar á mönnum, einungis í því skyni að verða sér úti um mat?
Þau landsvæði sem einna helst eru talin hafa hýst menningarsamfélög sem stunduðu mannát til forna eru Afríka, Suður- og Norður-Ameríka, Kyrrahafseyjarnar og Vestur Indíur. Ýmsir hafa einnig horft grunsemdaraugum til Bretlandseyja.
Ritaðar heimildir um villimennsku þjóðflokka á Bretlandseyjum frá þeim tíma er Rómverjar hernámu hluta eyjanna bera þess vitni að Keltar hafi stundað mannfórnir. Rómverski landfræðingurinn og sagnaritarinn Strabo (64/63 f.Kr.–20 e.Kr.), sem var uppi á tímum Ágústusar keisara, hélt því fram að Keltar á Írlandi væru frumstæðustu íbúar Bretlandseyja. Hann lýsti því yfir að þeir færðu ekki aðeins mannfórnir heldur stunduðu einnig mannaát. Samkvæmt Strabo heiðruðu börn minningu föður síns með því að éta hann. Strabo tók þó skýrt fram að hann hefði ekki neinar áreiðanlegar heimildir fyrir mannaáti írsku Keltanna. Frásagnir Rómverja um mannætur á Bretlandseyjum gætu því klárlega verið dæmi um sögusagnir eins þjóðflokks um annan, svo sem þegar hefur verið greint frá.
Vorið 2001 fundust illa leikin mannabein í helli í Alveston í Suður-Gloucesterskíri á Englandi. Hér var um að ræða bein af um 50 einstaklingum frá þeim tíma er Rómverjar lögðu hluta Bretlands undir sig.
Vegna áverka á beinunum þótti ljóst að einhverjir hinna látnu hafi fallið af manna völdum. En hvers vegna voru þeir drepnir? Jú, meðal mannabeinanna í hellinum fundust einnig fjöldi beina af hundum. Að öllum líkindum var mönnunum því fórnað fyrir hundaguðinum Cunomaglu, sem samkvæmt keltneskri goðafræði stóð vörð um undirheima. Önnur ummerki benda til þess að mannætur hafi verið að verki. Lærleggur sem fannst hafði til dæmis verið klofinn eftir endilöngu og mergurinn skafinn út og að líkindum étinn. Beinin sem fundust í hellinum í Alveston eru því sterk vísbending um að Keltar hafi stundað mannát fyrir 2000 árum síðan.
Mannát Keltanna í þessu tilviki tengist þó bersýnilega trúarathöfnum þeirra og ómögulegt er að álykta út frá þessum fundi um það hvort Keltar hafi stundað mannát með reglubundnum hætti.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Valgerður G. Johnsen. „Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2159.
Valgerður G. Johnsen. (2002, 6. mars). Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2159
Valgerður G. Johnsen. „Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2159>.