Í erlendum tungumálum eru notuð orðin 'anthropophagi' og 'cannibal' um mannætur. Fyrra orðið er komið úr grísku og merkir beinlínis 'sá sem étur menn', en seinna orðið er komið úr handskrifuðum útdrætti Bartólómeusar de Las Casas úr dagbók Kristófers Kólumbusar. Útdrátturinn var líklega gerður árið 1552. Þar á orðið 'canibales' við um ættbálk sem Kólumbus segist hafa heyrt af hjá svonefndum Arawak-indíánum. Ýmsir hafa dregið trúverðugleika þessarar frásagnar af mannætuættbálki í efa, meðal annars vegna þess að Kólumbus kunni afar lítið í tungumáli Arawak-indíana. Hann hafði í mesta lagi sex vikna þjálfun í þeirri tungu. Um mannát Ídí Amíns og önnur voðaverk er það að segja að hann var talinn hafa étið son sinn, en sá siður er algengt minni í heimsbókmenntun, og að auki sundurlimaði hann eina af eiginkonum sínum. Einnig átti hann að iðka blóðugar fórnarathafnir Kakwa-ættbálksins. Amín var harðvítugur andstæðingur Ísraelsmanna og að sögn sendi hann Golda Meir, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, skeyti þar sem hann harmar að Hitler skyldi ekki hafa tekist að útrýma öllum Gyðingum. Ídí Amín komst til valda í Úganda árið 1971, en 20 árum fyrr hafði hann orðið úgandskur hnefaleikameistari í léttiþungavigt og þeim titli hélt hann í níu ár. Margir telja fullvíst að Amín hafi verið haldinn mikilmennskubrjálæði og ýmislegt bendir til þess. Sjálfur kaus hann að titla sig svona:
Hans æruverðuga hátign, forseti til lífstíðar og ofursti Al Hadjí, Doktor Ídí Amín, VC, DSO, MC, drottnari allra lifandi skepna og fiska sjávarins og sigurvegari breska heimsveldisins í Afríku og sérstaklega í Úganda.Ídí Amín missti völd í apríl 1979 þegar hermenn frá Tansaníu náðu Kampala höfuðborg Úganda á sitt vald með hjálp úgandskra uppreisnarmanna. Amín flýði þá til Líbíu og fór síðan til Sádí-Arabíu þar sem hann heldur enn til, nálægt höfuðborginni Jedda [lést 16. ágúst 2003]. Enn í dag spretta upp sögusagnir af Amín, meðal annars eru íslenskir flugþjónar í pílagrímaflugi á vegum flugfélagsins Atlanta fullvissir um þeir hafi séð fyrrum einræðisherrann í líkamsræktarstöð í Jedda. Árið 1974 gerði leikstjórinn Barbet Schroeder heimildarmynd um Ídí Amín. Í myndinni er hægt að hlýða á harðstjórann leika frumsamda tónlist á dragspil. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru til þjóðir sem borða mannakjöt? Hvar eru þær? eftir Arnar Árnason
- Er rétt að Keltar hafi verið mannætur fyrir 2000 árum? eftir Valgerði G. Johnsen
- Hvert er næringargildi manneskju? [föstudagssvar] eftir ritstjórn
- Er hægt að "borða" með einhverju öðru en munninum? eftir Stefán Jónsson
- Borða dýrin? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hulme, Peter, Colonial Encounters: Europe and the Native Caribbean 1492-1797, Routledge, London og New York, 1992.
- Africana.com. Skoðað 21.8.2002.
- Cannibalism. Skoðað 21.8.2002.
- Mr. Dowling's Electronic Passport
- Orðabók Háskólans