Samkvæmt hefðbundinni málnotkun og máltilfinningu borðar maðurinn en önnur dýr éta. Misskilningur á þessu hefur oft komið fram í spurningum til okkar og virðist vera að færast í vöxt. Því viljum við minna sérstaklega á þetta hér. Það er einungis maðurinn sem borðar, samkvæmt máltilfinningu okkar. Þó má að sjálfsögðu tala um að menn "éti" ef við viljum ná fram sérstökum blæbrigðum sem fylgja því orðavali. Sögnin "að borða" er að sjálfsögðu dregin af því að við sitjum yfirleitt við borð þegar við snæðum og síðan færist orðið yfir á allt fæðunám okkar. Sambærileg orð eru yfirleitt ekki til í öðrum málum svo að okkur sé kunnugt, utan hvað það vottar fyrir svipaðri merkingu í enska orðinu board. -- Dýrin sitja venjulega ekki við borð þegar þau taka til sín fæðuna og því má segja að munurinn blasi við í orðinu sjálfu. Það virðist því vera tilgangslaus og vanhugsuð markleysa að tala um að dýr "borði". Í ýmsum öðrum málum en íslensku eru einnig höfð önnur orð um fæðunám dýra en manna, samanber til dæmis dönsku "spise/æde" og þýsku "essen/fressen". Í ensku er þessi greinarmunur hins vegar ekki gerður; þar nota menn sögnina "eat" bæði um menn og önnur dýr eins og kunnugt er. Þess má einnig geta að í hátíðlegu máli er til sögnin að eta sem er hægt að hafa um menn í kurteislegu máli, að minnsta kosti í þeim beygingarmyndum þar sem munurinn á "eta" og "éta" er sýnilegur. Löng hefð er fyrir því að nota sögnina 'að eta' í íslensku biblíumáli. Til dæmis kemur hún 677 sinnum fyrir í biblíuútgáfunni frá 1981 en 'borða' kemur þar aðeins fyrir tvisvar. Höfundur þakkar Guðrúnu Kvaran yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.
Mynd: HB